Páll Halldórsson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), segir að verði ekki tekið á vanda A-deildar sjóðsins muni staða hennar bara versna. Hann segir að eina lausnin sé að ríkið hækki iðgjaldið í samræmi við ákvæði laga um sjóðinn.
Samkvæmt mati tryggingastærðfræðings er 47 milljarða munur á eignum og framtíðarskuldbindingum A-deildar. Ef jafna á þennan mun þarf að hækka iðgjaldið um 4%. Það myndi kosta ríkissjóð yfir 5 milljarða á ári.
ASÍ og SA gerðu samkomulag við gerð síðustu kjarasamninga um að lífeyriskjör allra launþega yrðu jöfnuð á árunum 2014 til 2021, en samkomulagið byggðist á þeirri forsendu að iðgjaldið sem ríkið greiðir vegna sinna starfsmanna sé 11,5%. Það samkomulag er í uppnámi ef ríkið hækkar iðgjald í LSR í 15,5%.
Í umfjöllun um málefni LSR í Morgunblaðinu í dag segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að félagar í almennu lífeyrissjóðunum hafi tekið á sig skerðingu á síðustu árum vegna hrunsins. Það gangi ekki að þeir þurfi líka að greiða það áfall sem LSR varð fyrir vegna hrunsins.