Framkvæmdastjórn Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, fara fram á það í ályktun, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, dragi þau ummæli sín til baka að hreyfingin sé samtök gegn lýðræði.
Ummælin lét Össur falla í umræðum á Alþingi 8. nóvember sl. en þar sagði hann:
„Þeir sem eru á móti þessari framtíðarsýn [að ganga í Evrópusambandið] hafa eina skyldu, þeir verða að leggja fram sína eigin framtíðarsýn. Það hafa þeir ekki gert, það eina sem þeir hafa gert er að leggja fram Heimssýn — sem er orðið samtök gegn lýðræði.“
Í ályktuninni segir að ekkert í starfsemi Heimssýnar sé „til þess fallið að draga úr lýðræði. Opinská umræða um kosti og galla aðildar er einmitt talin mikilvægur hluti af lýðræðislegu ferli.“
Ályktun framkvæmdastjórnar Heimssýnar