Forstjóri Landspítalans segir, að hátt í þrír milljarðar króna muni sparast árlega í rekstri spítalans ef fyrirhugaðar nýbyggingar verða reistar og starfsemi hans þar með sameinuð á einum stað við Hringbraut.
Er þetta meginniðurstaða endurskoðaðrar hagkvæmniathugunar sem norska ráðgjafafyrirtækið Hospitalitet hefur unnið vegna byggingar nýs Landspítala.
Fram kemur í föstudagspistli Björns Zoëga, forstjóra Landspítala, á vef sjúkrahússins, að sérfræðingarnir fullyrði að mun óhagkvæmara sé að reka spítalann áfram eins og hann er nú en að byggja við Hringbraut.
„Það er ánægjulegt að þessir útreikningar stemma við það sem við höfum margsagt; það er dýrast að gera ekki neitt og sameinuð á einum stað getum við hagrætt enn meira í rekstri spítalans og þannig fjármagnað byggingarkostnaðinn," segir Björn.