Egils Gull besti „standard lagerbjórinn“

Egils gull féll gull í skaut á dögunum.
Egils gull féll gull í skaut á dögunum.

Bjórinn Egils Gull frá Ölgerðinni bar á dögunum sigur úr býtum í flokknum besti standard lagerbjór í samkeppninni World Beer Awards. Alls var keppt í þrjátíu flokkum og valið stóð á milli fimm hundruð tegunda, en fjöldi dómara blindsmakkaði hverja tegund og gaf síðan einkunn.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Egils Gull hlýtur alþjóðleg verðlaun en skemmst er að minnast silfurverðlauna sem  honum féllu í skaut á World Beer Cup árið 2008. Þessi keppni er öðruvísi. Haldnir eru nokkurs konar milliriðlar í þremur heimsálfum; Evrópu, Bandaríkjunum og í Asíu, og valinn er einn bjór í hverjum flokki frá hverjum stað, og einn af þeim hreppir svo titilinn. Því má segja að við höfum orðið Evrópumeistarar áður en við urðum heimsmeistarar,“ segir Guðmundur Mar Magnússon, bruggmeistari Ölgerðarinnar.

Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars: „Tær gullinn litur, lítill hvítur toppur. Léttristaður maltþefur í nefi, grjónjóttur ilmur. Sítrónukenndir humlar í munni. Frískandi, þurr og maltkenndur. Góður endir og eilítið bitur eftirkeimur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert