Getum komist út úr kreppu á þremur árum

Vilhjálmur Egilsson í Hörpu í dag.
Vilhjálmur Egilsson í Hörpu í dag.

Ef íslenskt atvinnulíf fær tækifæri til að nýta krafta sína getur Ísland komist út úr kreppu á þremur árum. Ef hins vegar við höldum áfram með óbreyttri stefnu verðum við a.m.k. áratug að komast út kreppunni. Þetta sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á fundi í Hörpu.

Vilhjálmur sagði að þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom til landsins haustið 2008 hefði sjóðurinn talað um að það tæki þrjú ár að komast út úr kreppunni og hagvöxtur hefði að þessu tímabili liðnu aukist um 13%, en í raun hefði vöxturinn ekki verið nema 6-8%.

Samtök atvinnulífsins vilja að íslensk stjórnvöld taki upp stefnu í ríkisfjármálum sem feli í sér að skuldir ríkissjóðs verði lækkaðar niður í 35% af landsframleiðslu á 10 árum. Stefna eigi að 3% hagvexti á ári og að það eigi að fela í sér 1,5% afgangi af ríkissjóði.

Vilhjálmur gagnrýndi harðlega skattastefnu stjórnvalda sem hefði haft afar neikvæð áhrif á atvinnulífið. Hann benti á að Ísland væri í næstneðsta sæti yfir fjárfestingar í Evrópu. Fjárfesting væri hér aðeins 13%. AGS hafi í efnahagsáætlun sinni sett sér markmið um 20% fjárfestingu. Það þýði að það vanti 100 milljarða inn í dæmið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert