Leit á jöklinum haldið áfram

Leitarmaður að störfum við Fimmvörðuháls.
Leitarmaður að störfum við Fimmvörðuháls. mbl.is/Kristinn

Leit stendur enn yfir að týndum sænskum ferðamanni á Sólheimajökli. Veðurskilyrði til leitar á svæðinu hafa batnað nú í morgun og mun þyrla Landhelgisgæslunnar taka þátt í leitinni þegar farið verður að birta upp úr klukkan átta og hin þyrlan kemur um tíuleytið. Hingað til hefur þoka komð í veg fyrir að hægt væri að nýta þyrlurnar til leitar.

Veðurspá er þokkaleg á leitarsvæðinu nú fyrir hádegi en eftir það er spáð versnandi veðri og má búast við slagveðri á jöklinum síðar í dag. 

Hingað til hefur þoka komið í veg fyrir að hægt væri að nýta hana til leitar. Um 80 manns hafa leitað mannsins í nótt en álíka stór hópur hvíldi og tekur við nú milli klukkan sjö og átta að sögn Sveins K. Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli.

Svíinn, sem er leitað að, er 25 ára en hann hringdi villtur, hrakinn og kaldur í Neyðarlínuna seint í fyrrakvöld og bað um aðstoð. Leit hófst þá þegar og var fyrst leitað í á og við Fimmvörðuháls og á Eyjafjallajökli en aðstæður þar voru mjög erfiðar, að sögn Kristins Ólafssonar, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem var þar ásamt fjölda liðsmanna björgunarsveitanna í gærkvöldi.

„Það var gríðarlegt vatnsveður, stormur og þoka. Skyggnið var 100-200 metrar þegar best var og alveg niður í 10-15 metra. Þetta er hátt uppi og þar verður mikil veðurhæð. Þetta voru mjög krefjandi aðstæður,“ sagði Kristinn. Það bætti ekki úr skák að ekki hefur snjóað að ráði á svæðinu svo ekki var hægt að beita almennilega tækjum á borð við snjóbíla og vélsleða. Ekið var t.d. í gömlum snjó til að komast upp á Eyjafjallajökul.

Tjaldi frá Alþjóðabjörgunarsveitinni var tjaldað á Fimmvörðuhálsi. Þar komust leitarmenn í skjól og gátu ornað sér á milli þess sem þeir tóku 5-8 tíma langar tarnir í óveðrinu. Tjaldið hefur ekki áður verið notað við jafn krefjandi aðstæður, að sögn Kristins. „Þetta reynir mikið á mannskapinn. Menn þurfa að vita hvað þeir eru að gera,“ sagði hann.

Björgunarsveitarmenn komu margir úrvinda til byggða af hálsinum síðdegis í gær eftir að hafa tekið tvær leitarvaktir. Þeir höfðu leitað í alla fyrrinótt, lagt sig í 2-3 tíma í gærmorgun og farið svo aftur til leitar. Þá var komið óþreytt lið til að leysa þá af.

Eftir að bíll Svíans fannst við sporð Sólheimajökuls síðdegis í gær var leitinni beint þangað. Kristinn sagði að þar ríktu allt aðrar aðstæður en á Fimmvörðuhálsi. Leitin á skriðjöklinum krefðist vanra fjallabjörgunarmanna.

„Þar er gríðarlega sprunginn skriðjökull, mikið af svelgjum og sprungum. Leitarmenn þurfa að vera á mannbroddum og með ísaxir. Menn þurfa að fara mjög varlega því þetta er hættulegt,“ sagði Kristinn. Hann sagði að svona jökull yrði seint leitaður til fulls. Til þess þyrfti að síga í hverja sprungu og svelg sem tæki langan tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert