„Þetta er eitt viðamesta leitarverkefni okkar á síðari árum,“ segir Jónas Guðmundsson í vettvangsstjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Um 300 manns komu að leitinni á sænska ferðamanninum á Sólheimajökli, sem fannst þar látinn í morgun.
Jónas segir þetta um margt sambærilegt leit að tveimur ungum Þjóðverjum á Svínafellsjökli árið 2007. Sú leit bar engan árangur, annan en þann að skila björgunarsveitarmönnum mikilsverðri reynslu sem nú kom sér vel.
„Við höfum kortlagt jökla landsins vel og gátum í leitinni núna byggt á upplýsingum. Þá eru nokkur ferðaþjónustufyrirtæki með ferðir um Sólheimajökul og velflestir starfsmenn þeirra eru jafnframt í björgunarsveitum. Þá voru við leit nærri áttatíu sérþjálfaðir fjallabjörgunarmenn sem sigu í sprungur á jöklinum. Við höfðum með orðum orðum sagt alla burði til að takast á við þetta dæmi,“ segir Jónas.
Liðsmenn björgunarsveita allsstaðar af landinu, tóku þátt í leitinni. Þeir eru nú aftur á leið til síns heima og væntanlega hvíld fegnir en frá því á miðvikudagskvöld hafa leitarmenn staðið vaktina sextán til átján tíma á sólarhring.