„Það hefur alltaf legið fyrir að ég ætlaði ekki að verða ellidauður í embættinu, eins og sagt er,“ segir Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sem tilkynnti við upphaf kirkjuþings í morgun að hann hygðist láta af embætti næsta sumar.
Hann tekur hins vegar fram að biskupsmálið svokallaða hafi haft áhrif á ákvörðunina.
Karl segist meta stöðuna þannig að það sé eðlilegt að láta af störfum á næsta ári, en þá hafi hann gegnt embættinu í 15 ár.
„Þá er gott að láta staðar numið. Ég tel líka að það sé gott að þessi breyting fari fram næsta sumar, því þá getur nýr maður komið strax að undirbúningi vegna komandi kirkjuþings. Það er erfitt að taka við á miðjum vetri þegar búið er að leggja allar meginlínur,“ segir Karl í samtali við mbl.is og bætir við að birtu- og gróskutíminn sé góður til slíkra hluta.
Spurður hvort biskupsmálið svokallaða hafi haft áhrif á ákvörðun sína segir Karl: „Þessi umræða hefur haft áhrif á mann og manns nánustu. En meginmálið í mínu huga hefur alltaf verið að nú sé rétti tíminn kominn. Ég verð 65 ára á næsta ári,“ segir Karl og bætir við að hann sjái fram á mörg verkefni sem hann geti hugsað sér að takast á við. Það eigi þó eftir að koma betur í ljós síðar.
Aðspurður kveðst Karl skilja sáttur. „Ég mun gera það. Ég hef kynnst gríðarlega stórum hópi góðs fólks sem hefur verið gott að eiga samskipti við og vinna með. Þær góðu minningar fylgja mér til framtíðarinnar,“ segir hann.
Þá segir Karl að margt liggi fyrir á kirkjuþinginu sem var sett í Grensáskirkju í morgun. Miklar ákvarðanir sem þurfi að taka til að marka stefnuna fram á við.
„Þetta eru þannig tímar að það er verið að gera upp alla hluti allsstaðar og stokka upp,“ segir hann að lokum.