Verkfall 15 undirmanna á skipum Hafrannsóknastofnunar hefur nú staðið síðan í lok september. Ekki hefur verið fundað í deilunni hjá ríkissáttasemjara síðustu daga. Ein af helstu kröfum Sjómannafélags Íslands, fyrir hönd umbjóðenda sinna, er að grunnlaunin hækki verulega og hefur talan 50% verið nefnd í því sambandi.
Lægstu grunnlaunin eru nú 157 þúsund krónur á mánuði. Fram hefur komið í blaðinu af hálfu forystumanna samninganefndar ríkisins að vilji sé til að lagfæra dagvinnulaunataxtana, en um leið verði að taka mið af heildargreiðslunum.
Heildarmánaðarlaun undirmanna á rannsóknaskipunum voru í fyrra á bilinu 400-525 þúsund krónur. Launahæsti undirmaðurinn á skipunum var í fyrra með rúmlega sex milljóna króna árstekjur. Að meðaltali voru sjódagar þessara starfsmanna 140 á síðasta ári. Inni í heildarlaunum eru um 70 fastir yfirvinnutímar og aðrar greiðslur lyfta laununum enn frekar.
Þegar skipin eru í landi taka menn út sín frí, en sinna einnig viðhaldi á skipunum og talsverð vinna er fólgin í frágangi eftir leiðangur og undirbúningi fyrir þann næsta sem kallar oft á allt önnur veiðarfæri og annan búnað. Auk hækkunar á grunnlaunum hefur Sjómannafélag Íslands farið fram á bætur fyrir sjómannaafslátt, sem afnuminn verður í áföngum. Um áramót verður búið að fella helming hans niður.
Verkfallið hefur þegar haft veruleg áhrif á rannsóknir Hafrannsóknastofnunar. Þannig hefur hvorki orðið af mælingu á ungloðnu, sem var ráðgerð í október, né haustralli, þar sem áhersla er lögð á rannsóknir á grálúðu, djúpkarfa, þorski og ýsu. Mælingar á ungloðnu hafa farið fram á þessum tíma í um 30 ár og haustrallið óslitið í aldarfjórðung.
Ósamið er við bæði skipstjórnarmenn og vélstjóra á skipum Hafrannsóknastofnunar.