Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, tilkynnti í ávarpi við upphaf kirkjuþings í morgun að hann hyggðist láta af embætti næsta sumar.
„Fyrir nær 39 árum vígðist ég til prestsþjónustu og játaðist ævitryggðum kirkju Krists og erindi hennar fyrir altari Dómkirkjunnar. Nú er þjónustutími minn senn á enda, en skipunartími minn í embætti biskups Íslands rennur út í lok næsta árs, eftir 15 ára þjónustu. Tel ég rétt að nýr biskup taki við næsta sumar. Því er þetta síðasta kirkjuþing sem ég mun sitja.
Ég mun kveðja embætti mitt með þakklæti í huga fyrir það góða fólk sem með mér hefur fetað veginn og á vegi mínum hefur orðið á vettvangi kirkju og samfélags. Ég hef notið mikillar gæfu í starfi og þjónustu á samleið með slíku fólki. Ég bið því öllu blessunar,“ sagði Karl.
Fram kemur í tilkynningu að Karl hafi einnig rætt áhrif kreppunnar á kirkju og samfélag og þann niðurskurð sem sóknir og yfirstjórn kirkjunnar glími við við til að mæta tekjumissi. Sóknargjöld sem ríkið greiðir til sókna þjóðkirkjunnar og til annarra trúfélaga hafa lækkað um 20% frá 2008 samkvæmt tölum innanríkisráðherra. Á sama tíma hafa greiðslur til stofnana innanríkisráðuneytisins hækkað um 5% vegna verðlagsbóta. Hér séu því trúfélög, söfnuðir og sameiginlegir sjóðir kirkjunnar að taka á sig skerðingu langt umfram aðrar stofnanir sem heyra til innanríkisráðuneytis.
„Við höfum verið í góðri trú í samskiptum við ríkið um að mæta áföllum þjóðarbúsins og tekið undir þau sjónarmið að þjóðkirkjunni væri ekki vandara um en öðrum að taka á sig skerðingar. Hér kemur í ljós að söfnuðir og sameiginlegir sjóðir þjóðkirkjunnar og önnur trúfélög hafa þurft að axla þyngri byrðar en aðrir.“
Þá minntist Karl Sigurbjörnsson á svokallað biskupsmál og sagði umliðið ár hafa verið sársaukafullt og átakamikið í kirkjunni. Kirkjuþing mun fjalla um skýrslu úrbótanefndar þingsins um það hvernig brugðist verði við ábendingum í skýrslu Rannsóknarnefndar kirkjuþings sem kynnt var í júní.
„Þegar ég tók við biskupsembætti einsetti ég mér að koma á umbótum í meðferð kynferðisbrotamála innan kirkjunnar. Margt hefur áunnist og ég treysti því að mál séu nú í þeim farvegi að viðbrögð og úrvinnsla í þessum málum verði til fyrirmyndar.“