Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, skrifar grein sem birtist á vef breska blaðsins Guardian í gær undir yfirskriftinni „Hvernig bandaríska dómsmálaráðuneytinu tókst að brjótast inn á Twitter-reikninginn minn með löglegum hætti.“
Í greininni fjallar Birgitta um það þegar bandarísk stjórnvöld óskuðu eftir því að upplýsingar um samskipti hennar á vefnum Twitter í tengslum við rannsókn yfirvalda á Wikileaks.
Hún ræðir um hvernig stjórnvöld geti nálgast persónuupplýsingar sem fólk setur á samskiptasíður eins og Twitter og Facebook. Þetta sé eitthvað sem almenningur geri sér ekki grein fyrir. Birgitta segir að það verði að binda enda á þetta. Skýra þurfi reglur og verja réttindi almennra borgara hvað varðar þessi mál.
Í lok greinarinnar segir hún að samkvæmt upplýsingum frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu þá sé hún ekki hluti af glæparannsókn bandarískra yfirvalda. Hún bendir hins vegar á að þrátt fyrir það hafi bandarískum embættismönnum tekist að krefja Twitter að afhenda yfirvöldum persónuleg samskipti og IP-tölur án sinnar vitundar.
„Það hefur aldrei verið jafn auðvelt fyrir Stóra Bróður að hnýsast í viðkvæmum upplýsingum án vitundar okkar,“ skrifar Birgitta.