Sænski ferðamaðurinn sem leitað hefur verið að á Sólheimajökli undanfarna daga fannst látinn. Þetta staðfesti lögreglan á Hvolsvelli nú fyrir stundu.
Fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu að björgunarsveitir hafi fundið Daniel Markus Hoij rétt fyrir hádegi, en leitað hafði verið að honum við Sólaheimajökull. Var hann látinn þegar björgunarlið kom að honum í um 600 metra hæð.
Yfir 300 björgunarsveitamenn tóku þátt í leitinni í morgun, þar af voru um um 80 manns á jöklinum sjálfum. Leitin síðustu daga hefur verið afar umfangsmikil og hafa um 500 manns frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg komið að henni frá því hún hófst á miðvikudagskvöld. Aðstæður hafa oft á tíðum verið afar erfiðar og krefjandi.
Íbúar og fyrirtæki á svæðinu hafa stutt vel við bakið á leitarfólki. Kvenfélögin Fjallkonan, Eygló og Freyja opnuðu miðstöð í skólahúsinu á Skógum þar sem björgunarlið gat hvílt sig og fengið mat, allan sólarhringinn. Segja konurnar það vera þakkir til björgunarsveita fyrir aðstoð sem þær veittu íbúum svæðisins í eldgosunum. Einnig hafa hótel og gistihús opnað dyr sínar fyrir leitarfólki, fyrirtæki gefið mat og Rauði krossin á Hvolsvelli sá um flutning aðfanga á svæðið.
Slysavarnafélagið Landsbjörg vill koma á framfæri þakklæti til allra sem að komu.
Lögreglustjóraembættið á Hvolsvelli vill færa, björgunarsveitafólki, starfsmönnum Landhelgisgæslunar sem og öðrum sem lagt hafa dag við nótt síðustu daga við leitina, mikið þakklæti. Aðstæður til leitar hafa verið gríðarlega erfiðar og krafist mikillar fagmennsku af þeim sem að henni komu.