Olnbogar sig ekki áfram á Íslandi

Ögmundur Jónasson. Mál Huang Nubo enn í skoðun í innanríkisráðuneyti.
Ögmundur Jónasson. Mál Huang Nubo enn í skoðun í innanríkisráðuneyti. mbl.is

„Ég veit ekki hvar maðurinn hefur fengið þessar hlutfallstölur í mengið,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra um hugsanleg kaup kínverska kaupsýslumannsins Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum.

Huang Nubo sagði í viðtali við dagblað í heimalandi sínu í vikunni 80% líkur á því að íslensk stjórnvöld heimiluðu honum kaup á Grímsstöðum á Fjöllum hvar hann vill reisa glæsihótel. Hann fyndi jafnframt fyrir miklum stuðningi almennings við þessi áform sín.

Ögmundur segir enn enga ákvörðun hafa verið tekna af eða á um hvort Huang verði veitt undanþága frá lögum um eignarhald á jörðum, þannig að hann geti keypt höfuðbólið á Hólsfjöllum. Nefnt hefur verið að niðurstaða í málinu ætti að liggja fyrir um miðja næstu viku, en innanríkisráðherra segir það af og frá.

„Menn geta ef til vill olnbogað sig áfram í krafti auðs og valda í Kína en hér á landi sitja allir við sama borð, óháð stétt og stöðu. Málið er einfaldlega í stjórnsýslumeðferð innan innanríkisráðuneytisins og við tökum í þetta þann tíma sem þarf. Erum þessa dagana að kalla eftir ýmsum upplýsingum og greinargerðum auk þess sem margir senda okkur erindi og reifa sín sjónarmið í þessu máli.“

Huang Nubo kveðst bjartsýnn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert