Tal um sparnað einber blekking

Pétur Kr. Hafstein, forseti Kirkjuþings við þingsetningu í Grensáskirkju í …
Pétur Kr. Hafstein, forseti Kirkjuþings við þingsetningu í Grensáskirkju í morgun. mbl.is/Kristinn

Um 20% skerðing ríkisins á sóknargjöldum sem það innheimtir fyrir Þjóðkirkjuna leiðir til þess að nú stefnir í mikið óefni í kirkjustarfi víða um land. Þetta kom fram í máli Péturs Kr. Hafstein forseta Kirkjuþings við setningu þess í morgun.

Pétur gerði að umtalsefni verndarákvæði í stjórnarskránni og sagði útbreiddan misskilning bæði meðal almennings og stjórnmálamanna, að stuðningur almannavalds við þjóðkirkjuna felist í fjárhagslegum stuðningi.

„Vissulega innheimtir ríkið með beinum sköttum sóknargjöld sem eru í eðli sínu félagsgjöld og renna til safnaða þjóðkirkjunnar eins og allra annarra trúfélaga í landinu til þess að standa undir margháttaðri velferðarþjónustu í nærsamfélaginu,“ sagði Pétur.

Í ávarpi sínu minnti Pétur á að fjárstuðningur ríkisins við þjóðkirkjuna byggist á samkomulagi frá árinu 1997, um afhendingu kirkjueigna til ríkisins. Endurgjald ríkisins þar hefur verið að greiða laun tiltekins fjölda starfsmanna þjóðkirkjunnar.

„Þetta samkomulag hefur verið lögfest og virt, meðal annars við þann óhjákvæmilega niðurskurð ríkisútgjalda sem efnahagshrunið kallaði á og þjóðkirkjan hefur fyrir sitt leyti tekið þátt í að axla. Kirkjujarðasamkomulagið myndi að sjálfsögðu halda fullu gildi sínu þótt sú leið yrði farin að hin evangeliska lúterska kirkja skyldi ekki lengur vera þjóðkirkja á Íslandi. Allt tal um milljarða sparnað ríkisins við slíka ákvörðun er einber blekking,“ segir Pétur Kr. Hafstein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert