„Þjóðkirkjan á krossgötum“

Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings.
Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings.

Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, lagði áherslu á hlutverk kirkjunnar í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi og hlutverk réttarríkis í setningarræðu sinni við upphaf kirkjuþings í morgun.

Forseti kirkjuþings fór yfir störf yfirstjórnar kirkjunnar undanfarið ár og þá vinnu sem framundan er, að því er fram kemur á vef kirkjuþings. Hann sagði meðal annars:

„Þjóðkirkjan stendur nú á krossgötum. Hún horfist í augu við sjálfa sig án þess að líta undan. Verkefnið er knýjandi: Hún á að draga skýrar víglínur í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi. Hún á að hafa réttlæti og virðingu fyrir mannlegum tilfinningum og vanmætti fórnarlamba að leiðarljósi. Hún á að undirstrika það rækilega í allri sinni framgöngu og boðun að kynferðislegt ofbeldi sé synd í kristnum trúarskilningi. Hún á að umvefja þá sem til hennar leita og telja á sér brotið. Hún á að styrkja þá og leiðbeina þeim og leitast við að koma málum í réttan farveg eftir því sem unnt er. Hún á að veita skjól og fylgd, bæði fórnarlömbum og ógæfufólki. Allt þetta getur kirkjan gert um leið og hún virðir í einu og öllu þá grundvallarreglu réttarríkisins að sérhver maður skuli saklaus talinn þar til sekt hans er sönnuð. Gleymum því ekki að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Kirkjan eða einstakir kirkjunnar menn, vígðir þjónar eða leikmenn, mega aldrei falla í þá freistni að taka sér dómsvald, koma fram sem rannsóknarréttur eða úrskurðaraðili og handhafi sannleika um sekt eða sýknu þeirra sem eru bornir sökum. Þá færi kirkjan sem siðferðilega ábyrg stofnun inn á háskalegar brautir. Hlutverk kirkjunnar er fyrst og fremst að vera til staðar, styðja og styrkja, fræða og uppörva, efla von og kærleika og vitund um mannlega reisn og réttlæti. Aðeins þannig getur hún verðskuldað traust og trúnað.“

Pétur Kr. Hafstein minnti á að í rannsóknarskýrslu kirkjuþings komi fram að þó að mistök hafi verið gerð í málsmeðferð þá komi þar fram að ekki var um vísvitandi þöggun eða tilraun til þöggunar að ræða af yfirstjórn kirkjunnar. Úrbótanefnd kirkjunnar fari nú yfir tillögur rannsóknarskýrslunnar og móti fyrirmyndarvinnubrögð í þessum málum.

Hann gagnrýndi niðurstöður stjórnlagaráðs varðandi tilvist þjóðkirkjunnar í tillögum að nýrri stjórnarskrá og sagði að þar væri hlaupist undan vanda og óviðunandi óvissa sköpuð. Það væri stjórnarskrárvarinn réttur þjóðarinnar sjálfrar að ákveða hvort þjóðkirkja skuli vera hér í landi eða ekki:

„Þar er hlaupist undan þeim vanda að kveða á um hvort hér á landi skuli vera þjóðkirkja eða ekki. Það ákvörðunarvald er fengið Alþingi með orðunum: „Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins” – rétt eins og sérstaka heimild þurfi í stjórnarskrá til að Alþingi geti gegnt löggjafarhlutverki sínu! Hitt er þó sönnu nær að það hlýtur að vera einn af grundvallarþáttum samfélagsins og því einn þráður í stjórnarskrá ef hin evangeliska lúterska kirkja á áfram að vera þjóðkirkja á Íslandi. Þar að auki er það rangnefni að tala nú um „kirkjuskipan ríkisins” þegar fyrir liggur að þjóðkirkjan er ekki lengur ríkiskirkja heldur sjálfstæð stofnun sem ber réttindi og skyldur að lögum. Með þessari tillögugerð stjórnlagaráðs er því sköpuð óviðundandi óvissa. Þetta er raunar ekki eina dæmið um ófullnægjandi frágang í hugmyndum um nýja stjórnarskrá og nægir þar að nefna þær snörpu deilur sem risið hafa um stöðu og hlutverk forseta Íslands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert