„Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að halda í krónuna áfram,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, frambjóðandi til formanns Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Sigurjón M. Egilsson í þættinum Sprengisandi í morgun.
Hún sagði að næstu 3-5 árin ætti að skoða hvort aðrir kostir séu betri. „Miðað við núverandi aðstæður finnst mér að við eigum að halda í hana [krónuna]. Ég held að hún sé besti kosturinn fyrir okkur,“ sagði Hanna Birna.
Hún sagði að menn ræði um gjaldmiðilinn eins og hann sé ástæðan fyrir ástandinu en gjaldmiðillinn sé í raun eins og hitamælir. Hann sé ekki brotinn þótt illa gangi. Þá minnti Hanna Birna á að Grikkir kenni evrunni um sína stöðu en við krónunni um okkar stöðu.
Hanna Birna sagði að sumir séu með þau rök að upptaka evru myndi aga okkur. „Við getum bara agað okkur sjálf. Ef við getum það ekki þá ráðum við heldur ekki við það að skipta um gjaldmiðil,“ sagði Hanna Birna.