Öruggast að senda sendibréf

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir

„Ég á alveg eftir að ráðfæra mig við lögfræðingana mína,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, en hún íhugar nú hvort hún eigi að áfrýja dómi sem féll í Virginíu í Bandaríkjunum fyrir helgi um að samskiptasíðunni Twitter bæri að veita bandaríska dómsmálaráðuneytinu aðgang að persónulegum gögnum hennar.

„Það er hægt að taka þetta eitt dómstig í viðbót en ég þarf að meta möguleikana á að vinna málið, því ef ég tapa þá getur það gefið slæmt fordæmi fyrir aðra,“ segir Birgitta.

Þingmaðurinn segir dóminn ekki hafa komið sér á óvart, hann hafi fallið í fylki þar sem hernaðaryfirvöld hafi aðsetur og málið sé að auki pólitískt. „Það er sérstök deild innan varnarmálaráðuneytisins sem heitir The Wikileaks Taskforce og þeirra eina vinna er að finna leið til þess að koma höggi á Wikileaks,“ segir Birgitta. „Og það er greinilegt að það er verið að nota mínar upplýsingar til þess að reyna að sakfella Julian Assange,“ bætir hún við.

Birgitta segir Bandaríkjunum hafa farið aftur í mannréttindamálum eftir að svokallað Patriot Act var fest í lög en ansi langt sé seilst þegar bandarísk stjórnvöld séu farin að teygja sig eftir einkaupplýsingum þjóðkjörinna fulltrúa í öðrum löndum.

Hún segir gagnlegt að nota samanburð við „raunheima“ þegar fjallað er um friðhelgi einkalífsins á netinu. „Ef bandarísk yfirvöld færu fram á það við íslensk yfirvöld að fá að fara heim til mín og gramsa í gögnum mínum þar þá liti þetta öðruvísi út,“ bendir hún á. „Það er svo auðvelt að brjóta á friðhelgi einkalífsins varðandi starfræn gögn en hver er munurinn á tölvupósti og sendibréfi?“ spyr hún.

Birgitta segist þó ekkert hafa að fela né hafi hún gert nokkuð ólöglegt. Hins vegar vilji hún vekja fólk til umhugsunar um hversu berskjaldað það er á netinu. „Í raun og veru þýðir þessi dómur að ég og allir aðrir sem segja já við notendaskilmálum, sem eru langir og á mjög flóknu tungumáli, erum að fyrirgera rétti okkar til þess að vita af því hvort stjórnvöld hafi aðgengi að gögnum sem eru ekki ætluð til opinberrar birtingar. Þetta finnst mér verstu fréttirnar fyrir alla,“ segir hún.

„Í tilfelli Twitter þá fengu þeir upphaflega bréf ásamt þremur öðrum fyrirtækjum, sem lögfræðingar mínir hafa ekki fengið að vita hver eru, og áttu að afhenda upplýsingar án minnar vitneskju. Það var eingöngu af því að þeir fóru með málið fyrir dómstóla að ég fékk að vita að yfirvöld væru að falast eftir þessu,“ segir Birgitta.

Hún hafi aldrei fengið nein skilaboð frá hinum fyrirtækjunum þremur og því sé óhætt að draga þá ályktun að þau hafi gefið bandarískjum stjórnvöldum þær upplýsingar sem þau fóru fram á. Enn fremur dregur hún þá ályktun að eitt af þessum fyrirtækjum hafi verið Facebook; bréfið til Twitter hafi verið staðlað og gefið til kynna að einnig hefði verið falast eftir kreditkortaupplýsingum og svo virðist sem stjórnvöld hafi verið að sækjast eftir upplýsingum frá samskiptamiðlum.

Birgitta segist vita til þess að Google hafi afhent bandarískum stjórnvöldum alla pósta annars fyrrum starfsmanns Wikileaks. „Og ég til dæmis setti upp googlegroups-grúppu fyrir þingmenn Hreyfingarinnar og okkar kjarnahóp og það var allt undir mínu nafni,“ segir hún. Þannig sé málið mjög stórt í hinu víða samhengi og þetta snúist ekki bara um hennar persónuupplýsingar heldur persónuupplýsingar annarra líka.

„Fólk sendir til dæmis þingmönnum viðkvæma tölvupósta í gegnum Facebook og Gmail, sem eru nú í hættu að vera notaðir af öðru þjóðríki. Ástæða þess að ég ákvað að taka slaginn er fyrst og fremst að láta fólk vita að þegar það sendir tölvupósta eða á samskipti á Facebook eða Twitter þá er það í raun að senda póstkort og það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir að ef það vill vera í öruggum samskiptum þá þarf það að finna aðrar leiðir,“ segir Birgitta.

„Og ég held að öruggasta leiðin í dag sé bara að senda sendibréf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert