Lagðar eru til verulegar breytingar á skipan reglna um kosningu biskups Íslands og vígslubiskups, skv. tillögum sem nú liggja fyrir kirkjuþingi.
Leggur kirkjuráð til að kosningarétt hafi allir prestar þjóðkirkjunnar, djáknar, fulltrúar á kirkjuþingi og kirkjuráði og formenn sóknarnefnda. Í þessu felst að þeir sem starfa á vettvangi kirkjunnar hafi einir kosningarétt. Myndu kennarar við guðfræðideild HÍ missa kosningarétt yrði tillagan samþykkt.
Þá leggja Baldur Kristjánsson, sóknarprestur í Þorlákshöfn, og Hjalti Hugason prófessor til við kirkjuþing að einstaklingur af því kyni sem er í minnihluta í röðum biskupa og hlýtur flest atkvæði í fyrstu umferð teljist réttkjörinn í embætti. Því þurfi ekki tvær umferðir eða frambjóðandi hreinan meirihluta atkvæða að baki sér, eins og tíðkast hefur.