Fundu flóttamenn á Miðjarðarhafi

TF-SIF er við eftirlitsstörf fyrir Landamærastofnun Evrópusambandsins.
TF-SIF er við eftirlitsstörf fyrir Landamærastofnun Evrópusambandsins. mbl.is/Árni Sæberg

Sif, flugvél Landhelgisgæslunnar, fann á föstudag bát á Miðjarðarhafi, en á honum voru 37 flóttamenn, þar af 10 börn. Flóttafólkið var á leið til Ítalíu, en Rússi og Úkraínumaður höfðu skipulagt smyglið. Þeir voru handteknir.

Í eftirlitsflugi Sifjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar aðfaranótt föstudags, fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins, greindist í eftirlitsbúnaði flugvélarinnar grunsamlegur bátur sem staðsettur var  16,6 sjómílur suðaustur af Otranto í Pugliu á Ítalíu. Á þaki bátsins sást uppblásinn slöngubátur og ofan þilja nokkrar persónur, þ.a.m. börn. Opinn hleri var á bátnum og sýndi hitamyndavél flugvélarinnar að talsverðan hita lagði út um opið. Vaknaði því grunur um að fjöldi fólks væri neðan þilja. Haft var samband við tengilið Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð Frontex í Róm og var strax ákveðið að senda varðskip í veg fyrir bátinn.

Var ítalskt varðskip staðsett í um 10 sjómílna fjarlægð frá bátnum og hélt það samstundis á vettvang. Við rannsókn þeirra um borð kom í ljós að í bátnum voru 37 flóttamenn27 fullorðnir karlmenn og 10 drengir. Engar konur eða stúlkubörn. Einnig voru um borð tveir skipuleggjendur smyglsins (facilitators), Rússi og Úkraínumaður. Voru þeir handteknir og fluttir til hafnar á Ítalíu.

Flóttafólkið var frá Pakistan, Afganistan, Bangladesh og Sri Lanka og samkvæmt fulltrúa Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð, var þeim bjargað um borð í varðskipið og fluttir til hafnar á Ítalíu þar sem þeir dvelja í flóttamannabúðum þar til ákvörðun verður tekin um framhaldið.  Á stöðufundi stjórnstöðvarinnar var sérstaklega rætt um góða samvinnu og samskipti milli áhafnar flugvélarinnar, stjórnstöðvarinnar í Róm og ítalska varðskipsins.

Landhelgisgæslan hefur frá því í júní tekið þátt í verkefnum Frontex, með varðskipinu Ægi samfleytt frá júní-október en flugvélinni Sif,  með hléum frá sama tíma. Varðskipið Ægir kom aftur til Íslands fyrir um viku síðan eftir að hafa tekið þátt í fjöldamörgum björgunaraðgerðum þar sem samtals 495 flóttamönnum var bjargað um borð og fluttir til hafnar með varðskipinu Ægi eða öðrum björgunarskipum á svæðinu, þar af voru 272 í alvarlegum lífsháska. 

Megintilgangur með eftirliti Frontex er landamæragæsla en óhjákvæmilega þróast verkefnin oft á tíðum yfir í að verða björgunaraðgerðir.  Á sjó stafar það m.a. af því að fólkið er á illa útbúnum fleytum sem ekki eru ætlaðar til lengri siglinga enda er skipuleggendum smyglsins í raun sama um örlög flóttafólksins eftir að þeir hafa fengið fargjaldið greitt. Í upplýsingum frá Frontex kemur fram að Alþjóðasiglingamálastofnunin (á ensku: IMO sem stendur fyrir International Maritime Organization) tekur árlega saman upplýsingar um björgunaraðgerðir á hafinu en þar segir að á árinu 2010 hafi tæki á vegum Frontex bjargað 98% af öllum þeim sem bjargað var á sjó í heiminum.  Samkvæmt því má segja að mannúðarstarf sé viðamikill þáttur í starfsemi Frontex.

Þessi mynd var tekin úr Sif af bátnum.
Þessi mynd var tekin úr Sif af bátnum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
Smyglbáturinn
Smyglbáturinn
Um borð í bátnum
Um borð í bátnum
Úr bátnum
Úr bátnum
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert