Vilja stofna þjóðgarð á miðhálendinu

Vatnajökull.
Vatnajökull. mbl.is/Rax

Í sameiginlegri umsögn 13 félagasamtaka um drög að þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun) er lagt til að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendi Íslands; þjóðgarður sem myndi setja Ísland á heimskortið fyrir framsýni og áræðni í umhverfismálum, eins og segir í umsögninni.

Þeir sem standa að umsögninni stóðu nýlega fyrir skoðanakönnun sem Capacent Gallup vann fyrir þau náttúruverndarsamtökin. 56% aðspurðra voru hlynnt, einungis 17,8% andvíg og 26,2% tóku ekki afstöðu. „Fyrsta skrefinu að stofnun miðhálendisþjóðgarðs er þegar náð með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Næsta skref væri tenging hans við fyrirhugaðan Hofsjökulsþjóðgarð og síðan myndu fleiri svæði fylgja í kjölfarið.


Sú niðurstaða að virkjanahugmyndir á landsvæðum sem nú þegar njóta friðlýsingar hafi ekki verið teknar með í drögum að þingsályktunartillögunni er mikill sigur fyrir náttúruvernd. Um er að ræða dýrmæt svæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs og Friðlands að Fjallabaki.


Jafnframt telja samtökin afar mikilsvert að tillagan geri ráð fyrir að dýrmæt náttúruverndarsvæði eins og Þjórsárver, Jökulsá á Fjöllum, efsti hluti Tungnaár, Markarfljót, Djúpá og Hólmsá, Kerlingarfjöll, hluta Hengilssvæðisins (Bitra og Grændalur), Geysir og Gjástykki, auk annarra, verði sett í verndarflokk. Nýlega var Langisjór friðlýstur sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.


Sterk rök hníga að því að stofnaður verði eldfjallaþjóðgarður á Reykjanesskaga og því er lagt til að ákveðnar virkjunarhugmyndir á svæðinu færist í verndarflokk. Ekki ólíkt miðhálendi Íslands er Reykjanesskagi einstakt svæði á heimsvísu og verðmæti þess ekki síst mikið vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið. Þá leggja samtökin áherslu á að færa allar virkjunarhugmyndir í Skaftárhreppi í verndarflokk vegna einstakrar jarðfræði, náttúru og víðerna svæðisins.


Tillögur félagasamtakanna fela í sér nokkrar tilfærslur á virkjunarhugmyndum í bið- og verndarflokk. Samtökin benda á að vert er að fara hægt í frekari orkunýtingu. Orkunýting felur iðulega í sér óafturkræf áhrif á náttúru landsins og því mikilvægt að fara sér hægt, sérlega þar sem óvissa ríkir um umhverfisleg, samfélagsleg og heilsufarsleg áhrif. Samtökin minna einnig á að þegar hafi verið ráðist í margar virkjanir með miklum áhrifum á náttúru landsins. Auk þess er árleg þörf á raforkuframleiðslu til
almennrar notkunar einungis rúmlega 50 GWh2 á ári, en þeirri þörf má auðveldlega sinna með stórauknum orkusparnaði og öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka