Framleiðsla hafin á nýju vistvænu eldsneyti

Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Carbon Recycling International.
Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Carbon Recycling International. mbl.is

Íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International hefur nú hafið framleiðslu á vistvænu eldsneyti úr koltvísýringsútblæstri og orku frá jarðvarma. Verksmiðja CRI, sem staðsett er við Svartsengi, er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum sem framleiðir eldsneyti með því að endurvinna koltvísýring. Notkun slíks eldsneytis í stað jarðefnaeldsneytis dregur úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Öll orka sem og koltvísýringur til framleiðslunnar eru fengin úr jarðvarma frá orkuveri HS Orku í Svartsengi við Grindavík. Verksmiðjan framleiðir vistvænt metanól sem blandað verður við bensín og hentar þannig öllum bensínbílum, í samræmi við íslenskt og evrópskt regluverk.

N1 og CRI undirrituðu nýlega samkomulag um innlenda markaðssetningu á eldsneytinu. “Við erum að móta það með þeim núna hversu hratt þetta fer af stað, en markmiðið er að þetta verði helst á sem flestum bensínstöðvum N1 þegar að fram líða stundir.  Við hefjum söluna á einni stöð en gangi allt að óskum verður farið að dreifa eldsneytinu á fleiri stöðvar upp úr áramótum,“ segir Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Carbon Recycling International.

Að sögn Benedikts er verksmiðja CRI með framleiðslugetu til íblöndunar sem annar þriðjungi árlegrar bensínnotkunar á Íslandi. Hún sé þó hönnuð þannig að hægt sé að þrefalda hana að stærð og anna þannig spurn eftir vistvænu metanóli til blöndunar við allt bensín hér á landi.

Carbon Recycling International (CRI) var stofnað árið 2006. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Borgartúni 27, Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert