Frumvarp að fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2012 var lagt fram á fundi borgarstjórnar í dag. Í ræðu sinni sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, frumvarpið vera enn eitt dæmið um það hvernig „kerfið þenst út á kostnað fólksins sem ekki er aflögufært." Ekki kæmi á óvart að þar skorti alla pólitíska sýn, stefnu og forgangsröðun fyrir Reykjavík.
Samkvæmt tilkynningu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins sagði Hanna Birna í ræðu sinni að meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins virtist ekki hafa neina aðra forgangsröðun en þá verja kerfið á kostnað borgarbúa.
„Meirihlutinn heldur því fram að þannig hafi náðst mikill afgangur í rekstri borgarinnar, en nefnir ekki að sá afgangur er tilkominn vegna of hárra skatta og gjalda á almenning. Ekki er sýnt fram á raunverulega hagræðingu í miðlægri stjórnsýslu. Umfang kerfisins minnkar ekki, launakostnaður eykst umfram samningsbundnar launahækkanir og starfsfólki í Ráðhúsinu fjölgar, svo fátt eitt er nefnt sem betur hefði mátt vinna til að hlífa borgarbúum við frekari álögum," sagði Hanna Birna.