Hugmyndir um endurreisn miðaldadómkirkju í Skálholti voru kynntar á kirkjuþingi í dag. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, kynnti hugmyndir um að aðilar í ferðaþjónustu og þjóðkirkjan tækju höndum saman um uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu í Skálholti með því að endurreisa þar miðaldadómkirkjuna og reka hana sem sjálfbært menningar- og sýningarhús. Áður hefur verkefnið verið kynnt kirkjuráði, segir á vef kirkjunnar.
Guðjón segir á kirkjan.is að þetta væri áhugaverð nýjung í íslenskri ferðaþjónustu. Miðaldadómkirkjan í Skálholti sé einstæð í evrópskri byggingarsögu og hafi á sínum tíma stærsta timburkirkja Norðurlanda. Kirkjuþing, sem nú er haldið í Grensáskirkju, mun fjalla um málið.
Í greinargerð með verkefninu segir m.a. að Skálholt hafi um sjö aldir verið höfuðstaður Íslands og á miðöldum reist stór dómkirkja úr timbri, sem og á Hólum. Stóðu þær að meðaltali í um 100 ár, en voru þá endurbyggðar, m.a. vegna fúa, foks eða bruna.
„Við fornleifarannsóknir Kristjáns Eldjárns og fleiri í Skálholti 1954-1958 fannst grunnur hinna stærstu þessara kirkja, (Ögmundarkirkju 1527-1567 / Gíslakirkju 1567-1673) og í framhaldinu vann Hörður Ágústsson, listmálari og fræðimaður, frekari rannsóknir á gerð þeirra og útliti. Teikningar að þeim hafa legið fyrir lengi og í Þjóðminjasafni er stórt líkan að miðaldakirkjunni sem um ræðir. Hún var tæplega 50 metra löng, 12 metra breið og 14 metra há á efst í mæni. Þetta voru mestu mannvirki á Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar og fram á 19. öld, eða í um þúsund ár," segir í greinargerðinni.
Þar segir einnig að miðaldakirkjur hafi verið eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna í Evrópu og aðstandendur verkefnisins telja að endurreist miðaldadómkirkja í Skálholti muni vekja mikla athygli og gefa færi á að draga fram merka þætti í sögu þjóðarinnar og Skálholtsstaðar. Sömuleiðis myndi byggingin hafa aðdráttarafl vegna mikillar byggingarsögulegrar sérstöðu.
Hugmyndin er að reka safna- og sýningatengda starfsemi í byggingunni og leita samstarfs við fræði- og listamenn um skreytingu hússins, innihald og dagskrá í því. Aðgangseyrir yrði sambærilegur við önnur söfn og sýningar á landinu. Hún yrði staðsett í Skálholti þar sem vegleiki hennar nyti sín án þess að skyggja á reisn núverandi bygginga á staðnum, eins og segir í greinargerðinni.
Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins undanfarið ár í samstarfi aðila og þá verið litið til byggingaframkvæmdarinnar sjálfrar, kostnaðar, rekstrarmöguleika, staðsetningar og margs fleira. Að undirbúningnum vinna meðal annars Skálholtsstaður, VSÓ Ráðgjöf og Icelandair Group.