Of lítil arðsemi af virkjunum

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að arðsemi af virkjunum fyrirtækisins sé of lítil en árleg arðsemi Landsvirkjunar hefur að meðaltali verið um 2% frá árinu 1965. Þetta kom fram í máli Harðar á haustfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir.

110 milljónir dala greiddar í arð og auðlindagjald

Segja megi að Landsvirkjun hafi ekki greitt eigendum sínum arð frá upphafi og því ekki hægt að tala um að greiddur hafi verið arður af auðlindinni, segir Hörður. Mikilvægasta hlutverkið í rekstri Landsvirkjunar sé að greiða arð til eigenda en frá árinu 1965 hefur eigandinn fengið núvirtar 66 milljónir dala auk þess sem greiddar hafa verið 44 milljónir dala í auðlindagjald. Alls hefur eigandinn því fengið 110 milljónir dala af auðlindinni. Það er að sjálfsögðu mjög lágt, segir Hörður og segja megi að Landsvirkjun hafi hvorki greitt arð né auðlindagjald hingað til.

Arðsemi Kárahnjúka allt of lítil

Hann tók Kárahnjúka sem dæmi í erindi sínu en um áramót eru fjögur ár frá því virkjunin hóf starfsemi. Tekjur af bókfærðu virði Kárahnjúka er einungis 6% sem Hörður segir allt of lítið og þyrftu helst að vera 10%. Hlutfallið sé um 10% af eldri virkjunum en þar sem þær hafa að mestu verið afskrifaðar þyrfti hlutfallið að hækka þar.

Heildarstofnkostnaður Kárahnjúkaverkefnisins var 2,3 milljarðar Bandaríkjadala en tekjur hafa að meðaltali verið 123 milljónir dala og raforkuverðið er um 27 dalir á megawött.  Hörður segir að kostnaður vegna lána hafi verið hagstæður en öll lán eru breytilegum vöxtum. Meðal tekjur á stofnkostnað eru því 5,3% en hefðu helst þurft að vera meiri, að sögn Harðar.

Raforkuverðið þyrfti að vera hærra

Handbært fé frá rekstri Kárahnjúka er um 250 milljónir Bandaríkjadala en eiginfjárhlutfallið er um 3,5% af Kárahnjúkum. Að sögn Harðar hefði raforkuverðið þurft að vera mun hærra þrátt fyrir hagstæða lánsvexti.  Hann segir framtíðarhorfur byggja mikið á álverði og vaxtakostnaði en tíminn vinni með verkefninu þar sem álverð muni örugglega hækka og lánapakkinn verði léttari eftir því sem á líður.  Hins vegar sé ljóst að afkoma Kárahnjúka muni hafa mikil áhrif á afkomu Landsvirkjunar næstu árin.

Að sögn Harðar er útselt raforkuverð til stórnotenda mun lægra á Íslandi heldur en annars staðar í Evrópu. Hér sé talað um 20-25 dali á MW á meðan annars staðar sé rætt um 70-75 dali á MWstund. Raforkuverð þurfi að hækka og hafi þurft að gera það strax í síðustu samningum sem Landsvirkjun gerði. Hann segir að aðrar forsendur hafi hins vegar verið þegar samið var um raforkuverð frá eldri virkjunum og því hafi ekki verið hægt að ná betri samningum á þeim tíma enda lítil eftirspurn eftir því að koma til Íslands frá stórfyrirtækjum.

Staðan er hins vegar önnur í dag og ljóst að eftirspurn verður meiri en framboð en Ísland er eitt af fáum þjóðum í Evrópu sem enn á eftir að virkja orkuauðlindir.

Hörður segist telja að hægt verði að tvöfalda orkuframleiðsluna hér á landi í sátt og samlyndi við land og þjóð.

Hann segir að allar spár bendi til þess að raforkuverð muni halda áfram að hækka og sterkar markaðsforsendur séu fyrir því að raforkuverð hækki hér á landi og þar með muni arðsemi Landsvirkjunar aukast að sama skapi.

Landsvirkjun gerir sér góðar vonir um að fá heimild til þess að virkja enn frekar en að það verði gert í sátt við þjóðina. Hörður segir að fyrirtækið sé ekki að gefa neinn afslátt á umhverfiskröfum á sama tíma og arðsemiskrafan eykst og umhverfiskrafan muni bara aukast með aukinni arðsemi.

Að sögn Harðar er lánshæfismat Landsvirkjunar lágt og tengist það því að matsfyrirtækin Moody's og Standard & Poor's telja arðsemi mjög lága hjá Landsvirkjun. Landsvirkjun er með mun minni arðsemi heldur en þau félög sem matsfyrirtækin bera Landsvirkjun saman við annars staðar á Norðurlöndum og samkvæmt því þyrfti að auka  hagnað Landsvirkjunar um 5-6 milljarða króna á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert