Pétur styður Hönnu Birnu

Pétur H. Blöndal er fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem lýsir yfir stuðningi við framboð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í formannsstól flokksins. Áður höfðu 10 þingmenn flokksins lýst yfir stuðningi við Bjarna Benediktsson sitjandi formann en 4 þingkonur hafa ekki gefið upp afstöðu sína. Pétur byggir ákvörðun sína á samstarfshæfileikum Hönnu Birnu og að hún sé vænlegri kostur sem formaður til lengri tíma litið.

Pétur segir jafnframt að hann fagni því að geta valið um formann en alltof algengt sé að formenn séu sjálfkjörnir án mótframboðs í íslenskum stjórnmálum. Sigurvegari kosninganna muni muni njóta þess að hafa verið kjörinn á lýðræðislegan hátt. Pétur bauð sig fram gegn Bjarna á síðasta landsfundi með skömmum fyrirvara en það segir hann aðallega hafa gert til að veita flokksmönnum val sem sé mikilvægt fyrir lýðræðið.

Þeir sem styðja Bjarna eru: Ásbjörn Óttarsson, Einar K Guðfinnsson, Illugi Gunnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Birgir Ármannsson, Jón Gunnarsson, Árni Johnsen, Ólöf Nordal, Tryggvi Þór Herbertsson og Kristján Þór Júlíusson.

Þær Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafa ekki gefið upp afstöðu sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert