Rætt um viðskiptaþvinganir gegn Íslandi

mbl.is

Nokkur af ríkjum Evrópusambandsins kölluðu eftir því að gripið yrði til viðskiptaþvingana gegn ríkjum sem væru ekki samvinnuþýð í fiskveiðimálum á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ríkja sambandsins sem fram fór í Brussel í gær. Makríldeilan við Íslendinga og Færeyinga var nefnd sérstaklega í því sambandi í máli t.d. fulltrúa Írlands, Frakklands, Þýskalands og Belgíu.

Fram kemur einnig í frétt fréttaveitunnar Agence Europe í gær að nokkrir ráðherranna hefðu ennfremur lagt á það áherslu að innflutningur á sjávarfangi til ESB yrði að vera háður því skilyrði að um sjálfbærar veiðar væri að ræða í því skyni að stuðla að árangursríkari baráttu gegn ólöglegum veiðum.

Þá lögðu ráðherrar Frakka, Þjóðverja, Íra, Belga og fleiri þjóða áherslu á að ESB mætti ekki missa sjónir af samningum um fiskveiðar við nágrannaríki sambandsins í norðri eins og Noreg, Ísland, Færeyjar og Grænland. Of mikið af athygli ESB væri beint að samningum við suðlæg ríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert