Reykjavík komin í gegnum óveðrið

Jón Gnarr borgarstjóri fer yfir fjárhagsáætlun Reykjavíkur á fundi með …
Jón Gnarr borgarstjóri fer yfir fjárhagsáætlun Reykjavíkur á fundi með blaðamönnum í dag. mbl.is/Golli

Gleði, þakklæti og stolt voru efst í huga Jóns Gnarr, borgarstjóra Reykjavíkur, á blaðamannafundi í dag þar sem kynnt var ný fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. „Ég er mjög glaður að við séum að leggja þetta fram hér í dag, ég er gríðarlega þakklátur fyrir þá vinnu sem hefur verið unnin við þessa fjárhagsáætlun og ég er svakalega stoltur og líður vel.“

Jón sagði aðstæður nú vera ólíkar þeim sem staðið hafi verið frammi fyrir við gerð síðustu fjárhagsáætlunar.

„Þá stóð ég hér í nákvæmlega sömu sporunum og bara með hnút í maganum og má eiginlega segja bara svolítið uppfullur af skelfingu. Við náttúrulega komum inn í þetta uppfull af góðum fyrirheitum, ætluðum að gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggilegt fyrir borgina og fórum strax inn í mjög umfangsmikla og erfiða fjárhagsáætlunargerð,“ sagði Jón.

Þar hafi einkum komið til erfið fjárhagsstaða Orkuveitu Reykjavíkur en þá hafi einnig verið um að ræða þriðja árið í röð sem skera hafi þurft verulega niður í rekstri borgarinnar. „Fjárhagsáætlunargerðin í fyrra reyndi svo mikið á mig að ég fór meira að segja að gráta opinberlega. Ég hef ekkert farið að gráta í vinnu við þessa fjárhagsáætlun,“ sagði Jón ennfremur.

Hann sagði stöðu A-hluta borgarsjóðs vera góða og að vandi Orkuveitunnar væri kominn í ferli og kominn ákveðin lausn í þeim efnum. „En ef maður rýnir í þessa áætlun og skoðar hana vel að þá les maður út úr henni að Reykjavík er komin í gegnum óveðrið, það er komið logn og við erum komin á lygnan sjó og framundan eru bjartir tímar og tækifæri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka