Gróflega má áætla að tekjutap ríkissjóðs af völdum svartrar starfsemi geti verið á bilinu þrjátíu til fimmtíu milljarðar króna árlega.
Er þá miðað við að umfang svarta hagkerfisins sé um 15,6% eins og það var að jafnaði á árunum 1999-2007. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi.
Til að svara um heildartapið vitnar fjármálaráðherra í nýlega rannsókn hagfræðinga sem tengjast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í henni var lagt mat á umfang svartrar en jafnframt löglegrar efnahagsstarfsemi í 162 löndum, og var Ísland þar á meðal.
Þá er tekið fram að beint tap samfélagsins sé meira en sem nemur tekjutapi í ríkissjóð. „Þannig tapa einnig sveitarfélög, lífeyrissjóðir og fleiri, sem og launþegar í formi skertra réttinda á vinnumarkaði.“ Þá geti svört starfsemi haft skaðleg áhrif á samkeppni.