Vill að Alþingi útvegi salernisaðstöðu

Tjaldbúðin á Austurvelli.
Tjaldbúðin á Austurvelli. mbl.is/GSH

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur sent forsætisnefnd bréf þar sem hann leggur til að Alþingi létti tjaldbúum á Austurvelli lífið með því að veita þeim aðgang að hreinlætisaðstöðu. Eins að eldhús þingsins hefði til reiðu heita súpu við lok vinnudags þingsins sem færa mætti tjaldbúum.

Bréf Þórs til forsætisnefndar.

„Á vappi mínu hér kringum Alþingishúsið tók ég tali nokkra þeirra tjaldbúa sem eru á Austurvelli og andæfa forgangsröðun stjórnvalda í anda s.k. Occupy hreyfingar sem eins og kunnugt er hefur breiðst út um nær allan heim.

Aðstæður fólksins gætu á margan hátt verið betri enda Íbúðalánasjóður, bankar og lífeyrissjóður að hirða húsnæði þess (alla vega sumra) og það í boði Alþingis. Eins og flestum okkar er kunnugt er tjaldvist oft ansi vosbúðarleg að ekki sé talað um í síðari hluta nóvembermánaðar.

Ég vil því leggja til að Alþingi létti þessu fólki vistina með einhverjum hætt með t.d. aðgangi að hreinlætisaðstöðu en lítið er um hreinlætisaðstöðu á svæðinu. Eins mætti hugsa sér að eldhús þingsins hefði til reiðu heita súpu við lok vinnudags þingsins sem færa mætti tjaldbúum.

Því mælist ég til þess að forsætisnefnd í samráði við yfirstjórn þingsins veiti tjaldbúum afnot að hreinlætisaðstöðu þann tíma sólarhringsins sem þingfundur er ekki, ella er hætta á að andrúmsloftið umhverfis þinghúsið versni til muna.

Eins yrði það velgjörðargerningur sem sómi yrði að, ekki síst nú í aðdraganda aðventu, ef Alþingi gæfi fólkinu heita súpu daglega. Vil ég svo hvetja forsætisnefndarmenn til að gera sér ferð yfir gjána og heilsa upp á fólkið enda um hið besta fólk að ræða."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert