Það tók fyrirtæki þrjú ár og átta mánuði að fá innflutningsleyfi hjá landbúnaðarráðuneytinu fyrir ferskum eggjum frá Svíþjóð. Umboðsmaður Alþingis gagnrýnir þetta í nýju áliti og segir að stjórnsýslulög hafi verið brotin.
Embætti umboðsmanns Alþingis hefur áður fjallað um þetta sama mál og í áliti fyrir ári komst embættiðað þeirri niðurstöðu að þær tafir sem þá voru orðnar á afgreiðslu umsóknarinnar hefðu ekki samrýmst málshraðareglu stjórnsýslulaga.
Frá því að umboðsmaður lauk athugun sinni í nóvember í fyrra liðu ellefu mánuðir þar til umsókn fyrirtækisins var endanlega afgreidd, en það gerðist 18. október sl. Þar af liðu rúmlega fjórir og hálfur mánuður frá því að umsögn yfirdýralæknis Matvælastofnunar lá fyrir en þar var lagt til að innflutningurinn yrði heimilaður. Þá höfðu starfsmenn ráðuneytisins lagt til við ráðherra að innflutningurinn yrði heimilaður í minnisblöðum sínum, dagsettum 18. júlí og 26. ágúst 2011.
Umboðsmaður segir, að þegar umsögn Matvælastofnunar barst hafi legið fyrir álit setts umboðsmanns um að þegar hefðu orðið slíkar tafir á afgreiðslu málsins að málsmeðferðin samrýmdist ekki málshraðareglu stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því enn ríkari ástæða en ella hafa verið til að hraða afgreiðslu málsins.
Hann taldi að sumarleyfi starfsmanna gætu almennt ekki réttlætt tafir á afgreiðslu slíkra mála heldur yrði að haga skiptingu verkefna milli starfsmanna, skipulagi sumarleyfa og ráðstöfunum af því tilefni á þann hátt að fært væri að afgreiða þau innan hæfilegs tíma.
Umboðsmaður tók líka sérstaklega fram að pólitísk afstaða ráðherra til þess hvort veita ætti leyfi þegar fyrir lægi að tilskilin skilyrði laga væru uppfyllt gæti ekki réttlætt að afgreiðslu á umsókn um slíkt leyfi væri látin bíða umfram þau mörk sem leiða af málshraðareglum.
Það var niðurstaða umboðsmanns að málsmeðferð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hefði ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Þá taldi hann að ráðuneytinu hefði borið að veita lögmanni fyrirtækisins nákvæmari upplýsingar en gert var um það hvenær ákvörðunar í málinu væri að vænta.
Að lokum var það niðurstaða umboðsmanns að það hefði ekki samrýmst þeim sjónarmiðum sem lög um umboðsmann Alþingis byggjast á að afhenda sér ekki öll gögn málsins eins og óskað hafði verið eftir.
Beindi umboðsmaður Alþingis þeim tilmælum til sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytisins að gæta sérstaklega að því að gera nauðsynlegar úrbætur á verklagi og starfsháttum innan ráðuneytisins til að hraða afgreiðslu mála þannig að tafir af því tagi sem urðu í þessu máli endurtækju sig ekki.