Alls voru 512 jarðskjálftar staðsettir undir Mýrdalsjökli í október. Þar af voru um 380 skjálftar undir Kötluöskjunni, um 70 undir vesturhluta jökulsins og um 50 undir Hafursárjökli suður af öskjunni.
Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands að þann 5. október hafi hafist snörp skjálftahrina í Mýrdalsjökli í norðaustanverðri Kötluöskjunni, rétt sunnan við Austmannsbungu.
Segir að stærsti skjálftinn hafi orðið kl. 04:11:51 og mælst um 4 að stærð. Alls mældust sjö skjálftar 3 eða stærri og nokkrir rétt undir 3.
Þá kemur fram að viðvarandi skjálftavirkni hafi verið allan október í Mýrdalsjökli þar sem nokkrir tugir skjálfta hafi verið meira en 2 að stærð.
Nánar um jarðskjálfta á Íslandi í október.