Á annað hundrað grunnskólanemar í Reykjavík á aldrinum 8-15 ára tóku á degi íslenskrar tungu við íslenskuverðlaunum skóla- og frístundaráðs við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Verndari verðlaunanna, frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti afhenti verðlaunin ásamt Oddnýju Sturludóttur, formanni skóla- og frístundaráðs, og Mörtu Guðjónsdóttur, formanni nefndar um verðlaunin. Vigdís Finnbogadóttir sagði í ávarpi sínu að henni þætti afar vænt um að fá að afhenda þessi verðlaun. „Tungumálið er hljóðfæri hugans og með því komum við orðum að því sem skiptir okkur mestu," sagði Vigdís meðal annars.
„Reykvískir grunnskólanemar sem tóku við verðlaunum í dag hafa skarað fram úr á ýmsa vegu í íslenskunámi, verið skapandi í skrifum, munnlegri tjáningu og framsögn. Þá voru meðal verðlaunahafa tvítyngdir grunnskólanemar sem sýnt miklar framfarir í íslenskunámi. Allir verðlaunahafar fengu til eignar veglegan verðlaunagrip, þröstinn góða, sem hannaður er af Ingibjörgu Hönnu Bjarnadóttur. Við athöfnina í dag söng kór Grandaskóla og skólahljómsveit Austurbæjar lék fyrir gesti," segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.