Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gaf til kynna á Alþingi í dag að ættingjar fjármálaráðherra ættu hagsmuna að gæta í tengslum við kaup ríkisins á jarðhitaauðlind á jörðunum Junkaragerði og Kalmannstjörn á Reykjanesi og að pólitískar spurningar hlytu að vakna. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra sagði að þetta væri ósæmilegur málflutningur og Alþingi til skammar ef ekki væri beðist afsökunar á honum.
Vigdís sagði að Hitaveita Suðurnesja og sveitarfélögin á Suðurnesjum hefðu gert með sér samkomulag árið 1999 um að hitaveitan myndi kaupa af sveitarfélögunum það land og jarðhitaréttindi, sem fylgdu landspildu, sem sveitarfélögin höfðu áður keypt af Oddi Ólafssyni og Katli Ólafssyni með kaupsamningi árið 1976. Um hafi verið að ræða landspildu úr jörðunum báðum upp á 63-70 hektara og borgað var fyrir það 63 milljónir króna.
„Þar með afhentu þessir aðilar endurgjaldslaus afnot af því svæði sem á er minnst," sagði Vigdís. Sagði hún að systir fjármálaráðherra og mágur hans ættu 16,46% í sitthvorri jörðinni. „Því hljóta að vakna hér upp pólitískar spurningar þegar afgreiða á fjáraukalög í dag, hvaða hagsmuni er verið að vernda. Er verið að kaupa heim réttindi, er þetta svipað og að ekki megi leggja veg fyrir vestan vegna þess að þrír sumarbústaðaeigendur neita að afhenda Teigsskóg til vegagerðar," spurði Vigdís.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að þótt hann hefði ýmislegt upplifað á Alþingi þá væri langt seilst nú. Vigdís hefði dylgjað að því, að hann væri í viðskiptum við venslamenn sína. Það væri hins vegar heppilega fyrir alla, ekki síst Vigdísi, að hún vissi hvað hún væri að tala um áður en hún reyndi fyrir opnum tjöldum að hafa æruna af félögum sínum á grundvelli misskilnings, ónógra upplýsinga eða tilrauna til vísvitandi blekkinga.
„Hið rétta er að ríkið er að kaupa af Reykjanesbæ tilteknar spildur úr jörðunum Kalmannstjörn og Junkaragerði, sem löngu höfðu verið seldar. Viðskiptin eru alfarið milli ríkisins og Reykjanesbæjar og eignarhald á jörðunum að öðru leyti er algerlega óskylt mál," sagði Steingrímur.
Hann sagðist ekki kær sig um afsökunarbeiðni frá Vigdísi Hauksdóttur „en ég fer fram á það að háttvirtur þingmaður biðji alsaklaust venslafólk mitt (...) og aðra eigendur jarðanna Kalmannstjarnar og Junkaragerðis afsökunar. Þetta er ósæmilegur málflutningur og Alþingi til skammar ef ekki er umsvifalaust beðist afsökunar á að bera slíkt á borð," sagði Steinrímur.
Vigdís bað ekki um orðið til að svara.