Krefjast eðlilegrar samkeppni

Já upplýsingaveita gefur m.a. út símaskrána.
Já upplýsingaveita gefur m.a. út símaskrána. Sigurgeir Sigurðsson

Eigendur og stjórnendur Miðlunar ehf. segjast vera orðnir langþreyttir á þeirri óskiljanlegu vernd sem starfsemi Já upplýsingaveita hf. nýtur af hálfu löggjafa- og eftirlitsaðila á Íslandi. Þess er krafist að úrskurður í kærumáli verði kveðinn upp sem fyrst til að mynda eðlilega samkeppni á markaði.

Árni Zophoniasson, stjórnarformaður Miðlunar, hefur sent Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála bréf vegna þess að 12. júlí sl. barst nefndinni kæra frá Já Upplýsingaveitum hf. (hér eftir nefnt Já) vegna hluta af ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 22/2011, dags 28. júní 2011. Tilefni bréfsins er að 18 vikur eru liðnar án þess að úrskurður hafi verið felldur en í reglugerð um nefndina segir að úrskurðir skuli að jafnaði liggja fyrir innan tólf vikna frá því að kæra berst henni.

Í bréfinu segir: „Kæra þessi er hluti af máli sem varðar einokun á upplýsingaþjónustu um símanúmer einstaklinga, ósvífnar samkeppnishindranir sem Já hefur sett upp til að tryggja stöðu sína á þessum markaði og einkennilega úthlutun á réttindum sem nema hundruðum milljóna til Já. Hér að neðan verður gert betur grein fyrir þessum atriðum:

  • Markaðurinn fyrir upplýsingar um símanúmer einstaklinga (símaskrá, 118 og simaskra.is) hefur verið einokaður af Já og forverum þess fyrirtækis. Stærð markaðarins er tæplega eitt þúsund milljónir. Erlendis ríkir eðlileg samkeppni á þessum markaði. Fyrirtækin sem hafa starfað á þessum markaði (Póstur og sími, Síminn og nú Já) hafa, að mati undirritaðs, vísvitandi haldið öðrum fyrirtækjum frá starfseminni jafnvel þó löggjafinn hafi gert veikburða tilraunir til að tryggja samkeppni. Ástandið á þessum markaði er í algeru ósamræmi við almenna þróun til frjálsræðis og aukinnar samkeppni í viðskiptalífinu.
  • Já er skylt samkvæmt alþjónustukvöð sem fyrirtækið hefur undirgengist að selja þriðja aðila aðgang að gögnum um símanúmer. Slíkur aðgangur var boðinn Miðlun fyrir 42 kr. (án VSK) fyrir hverja uppflettingu ef ætlunin var að nota upplýsingarnar í símaþjónustu en 125 kr. fyrir hverja uppflettingu ef ætlunin var að nota upplýsingarnar í netþjónustu. Þessi verð útiloka samkeppni algerlega. Þann 7. desember 2010 óskaði Miðlun eftir því við Póst- og fjárskiptastofnun að framkvæmd yrði kostnaðargreining á verðskrá Já. Niðurstaða úr þeirri kostnaðargreiningu lá fyrir 1. júlí 2011. Samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar var Já gert að selja ofangreindar upplýsingar fyrir 1,14 kr. fyrir hverja uppflettingu. Munurinn er mörg þúsund prósent. Það er augljóst að verðskrá Já var sett fram til að koma í veg fyrir eðlilega samkeppni.
  • Já sætta sig ekki við samkeppni á þessum markaði. Örfáum dögum eftir að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar lá fyrir kærði Já það ákvæði í alþjónustukvöð fyrirtækisins, sem gerir þeim skylt að veita þriðja aðila aðgang að upplýsingum. Já hafði ekki gert athugasemdir við þessa skyldu sína á meðan þeir gátu varist samkeppni með háum verðum. Þegar sá múr var brotinn niður greip fyrirtækið til annarra lagalegra bragða til að verjast samkeppni. Þessi framkoma fyrirtækisins er vísvitandi aðför að hagsmunum mögulegra samkeppnisaðila og neytenda. Það verður að gera þá kröfu til eftirlitsaðila að þeir standi vörð um hagsmuni neytenda og komi í veg fyrir að fyrirtækið komist upp með að halda öðrum aðilum frá samkeppni með málaflækjum og töfum á rekstri málsins.
  • Símanúmerið 118 er í umsjón Póst- og fjarskiptastofnunar. Í símanúmerið hringja u.þ.b. fimm milljón manns á ári sem skapar tekjur sem nema u.þ.b. fimm hundruð milljónum á ári. Þann 10. febrúar 2011 var Já úthlutað númerinu til 5 ára án þess að hagsmunaaðilar hefðu tækifæri á að koma að því borði. Þessi ráðstöfun er með öllu óskiljanleg – einkafyrirtæki er úthlutað tekjum sem nema allt að tveimur og hálfum milljarði króna á ráðstöfunartímabilinu.“

Í lok bréfsins segir að á þetta sé bent þar sem eigendur og stjórnendur Miðlunar ehf. séu orðnir langþreyttir á „þeirri óskiljanlegu vernd sem þessi starfsemi nýtur af hálfu löggjafa- og eftirlitsaðila á Íslandi“. Þess sé krafist að úrskurður í ofangreindu máli verði kveðinn upp án tafar og samkeppnishindrunum rutt úr vegi þannig að eðlileg samkeppni myndist á þessum markaði. „Allar tafir á afgreiðslu þessa kærumáls miða að því að styrkja samkeppnisstöðu Já, tefja fyrir samkeppni, skaða hagsmuni mögulegra samkeppnisaðila og skaða hagsmuni neytenda sem eiga rétt á valkostum og ódýrari þjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert