Þingverðir höfðu afskipti af hópi fólks sem krotaði með krítum á gangstéttina við Alþingishúsið í morgun. Skrifstofustjóri Alþingis segir að þegar fólkið hafi verið beðið um að fara hafi það tekið upp á því að krota á veggi hússins. Urðu þingverðir að hvessa sig við fólkið til að það færi.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir mótmælendur, sem hafa reist tjaldbúðir á Austurvelli, hafi staðið fyrir krotinu. Hópurinn kennir sig við Occupy Reykjavík.
Helgi segir í samtali við mbl.is að rétt upp úr kl. 10 hafi fólkið tekið upp á því að krota á stéttina við skála þinghússins. Þingverðir hafi þá farið út til að þrífa krotið.
„Þá fóru þeir að krota á húsið,“ segir Helgi.
Aðspurður segir Helgi að ekki hafi orðið alvarlegar stympingar við þinghúsið en þingverðirnir hefðu hins vegar orðið að hvessa sig við mótmælendurna svo að þeir færu og þingverðirnir gætu hafist handa við að þrífa.
„Við munum hafa samband við borgaryfirvöld og óska eftir því að þessi tjöld verði fjarlægð,“ segir Helgi. Aðstaðan sem fólkið búi við á Austurvelli sé ekki viðunandi.
„Það eru engin salerni, þar er engin hreinlætisaðstaða þarna og svo framvegis. Þetta er með öllu óásættanlegt fyrir þingið að hafa þetta þarna,“ segir Helgi og bætir við að mikil óþægindi og röskun fylgi tjaldbúðunum.
Sumir hafi tekið upp á því að sinna þörfum sínum við þinghúsið. „Þetta er algjörlega óviðunandi. Við munum í framhaldi af þessu atviki, enn á ný, krefjast þess að þetta farið eitthvað annað,“ segir Helgi.
Fyrir helgi samþykkti forsætisnefnd Alþingis sérstaka ályktun vegna málsins sem var send borgaryfirvöldum fyrir helgi. En þar er farið fram á að tjaldbúðirnar verði færðar á annan stað í borginni.