Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, tekur vel í hugmynd um að reisa timburdómkirkju í Skálholti, sömu gerðar og þar stóð á miðöldum, Hann segir að bygging slíks tilgátuhúss gæti orðið Skálholti til framdráttar.
Hugmyndin var kynnt á kirkjuþingi í gær en unnið hefur verið að verkefninu undanfarið ár. Málið verður væntanlega tekið fyrir í allsherjarnefnd kirkjuþings í dag. Kristján segir þau álitamál sem verið hafa uppi um byggingu Þorláksbúðar ekki koma til nú.
„Ég tel ekki ástæðu til að reikna með að það verði nein þannig átök um þessa nýju byggingu eins og þau sem hafa farið af stað með Þorláksbúð,“ segir Kristján Valur í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag.
Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, er áætlaður stofnkostnaður við bygginguna 530 milljónir króna en hugmyndin sé að aðgangseyrir standi undir kostnaði. Ekki standi til að fara fram á almannafé eða fé úr sjóðum kirkjunnar.