Verða upptekin þegar atkvæðagreiðsla fer fram

Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Eggert

Þingfundur hefur verið boðaður klukkan 10 á Alþingi á morgun og á þá að fara fram lokaatkvæðagreiðsla um fjáraukalög fyrir þetta ár. Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokks segir að stjórnarandstaðan verði upptekin á þessum tíma, sem sé ekki hefðbundinn fundartími á fimmtudögum og muni því ekki taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

„Þessi fundartími er ekki ákveðinn í samráði við þingflokk Sjálfstæðisflokksins  og við ætlum ekki að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu," sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna.  Sagðist hún reikna með að það sama ætti við um aðra þingflokka stjórnandstöðunnar.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku heldur ekki þátt í atkvæðagreiðslu síðdegis í dag um hvort halda ætti kvöldfund heldur gengu út og lýstu því yfir að afgreiðsla fjáraukalagafrumvarpsins væri alfarið á ábyrgð stjórnarflokkanna. Var atkvæðagreiðslan ógild vegna ónógrar þátttöku en ekki var þörf á kvöldfundi vegna þess að enginn stjórnarandstæðingur tók þátt í umræðunni.

Fyrr í dag gagnrýndu stjórnrandstæðingar harðlega á Alþingi, að þeir ættu að taka þátt í að afgreiða fjáraukalögin án þess að hafa í höndunum ýmis gögn, sem tengjast samningum um sölu á eignarhlut ríkisins í Byr hf. og Spkef.

Fram kom að þingmenn í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd fengu að sjá þessa samninga í morgun en var þá sagt að leynd hvíldi yfir þeim. Þeirri leynd var aflétt síðdegis en þá kom í hlut að hluta af samningunum vantaði í þau eintök, sem þingmenn höfðu undir höndum. Vildu stjórnarandstæðingar að umræðu um fjáraukalögin yrði frestað svo þingmenn gætu kynnt sér málið nánar. Við því var ekki orðið.

„Ég lýsi allri ábyrgð á þessum tilvonandi lögum á herðar ríkisstjórnarinnar," sagði Ragnheiður Elín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert