Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis hafa lagt fram tillögu um að draga til baka allan niðurskurð á framlögum til spítala, heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og hjúkrunar- og dvalarheimila sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Þá felur tillagan í sér að hætt verði við niðurskurð til löggæslumála og Landhelgisgæslu.
Nemur upphæðin alls rúmum 1,7 milljörðum króna. Í staðinn leggja þeir til niðurskurð á öðrum sviðum og hefðu tillögurnar því engan nettóútgjaldaauka í för með sér fyrir ríkið að sögn Kristjáns Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks og eins flutningsmanna tillögunnar.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að stærsti liðurinn sem sjálfstæðismenn vilja skera niður er svokallaður óvissusjóður fjármálaráðuneytisins. Leggja þeir til að framlög til hans verði skert um rúmar 820 milljónir króna. Þá er lagt til að framlög til utanríkisráðuneytisins verði skorin niður um 500 milljónir.