Pétur H. Blöndal, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að leggja fram frumvarp á Alþingi um hækkun ellilífeyrisaldurs. Fólk sé orðið mun sprækara í dag en það var áður fyrr og geti vel unnið lengur.
Pétur sagði þetta fyrir helgi þegar fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Pétur sagði að skuldbindingar B-deildar LSR væru að vaxa ár frá ári og þetta væri tímasprengja. Lífeyrissjóðirnir væru þar að auki í miklum erfiðleikum með að ná þeirri ávöxtun sem þeir stefndu að.
„ Ég ætla meira að segja að flytja frumvarp um að hækka ellilífeyrisaldurinn. Fólk er svo miklu sprækara núna, getur alveg unnið lengur og vill það oft og tíðum. Mér finnst að þeir sem vilji vinna lengur eigi endilega að fá að gera það og borga þá skatta og skyldur, og inn í lífeyrissjóð og afla sér meiri réttinda í lífeyrissjóði og hjálpa þannig til að standa undir þessu kerfi.
Það eru sem sagt þrjár leiðir, þar af að hækka iðgjaldið eða skerða réttindin og hvort tveggja er slæmt. Það er mjög erfitt að hækka iðgjaldið sem stendur, atvinnulífið stendur ekki undið því og ríkissjóður ekki heldur. Þess vegna væri eitt ráð að hækka ellilífeyrisaldurinn, t.d. að hætta að banna opinberum starfsmönnum að vinna eftir sjötugt. Margir þeirra eru mjög færir og ég vil að þeir megi vinna til áttræðs þess vegna. Góður kennari getur alveg unnið til 75 ára aldurs eða áttræðs ef hann hefur löngun til þess,“ sagði Pétur.