Geti fengið upplýsingar frá skóla

Ítarleg greinargerð fylgir frumvarpinu.
Ítarleg greinargerð fylgir frumvarpinu. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Í nýju frumvarpi til barnalaga, sem innanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi er  réttarstaða forsjárlausra foreldra bætt til að fá upplýsingar um börn sín frá skóla og leikskóla.

Í frumvarpinu er að finna allnokkur nýmæli frá því sem er í gildandi lögum. Í frumvarpinu er að finna ýmis nýmæli sem afmarka frekar hlutverk foreldra. Þar er t.d. skilgreint frekar í lögum en nú er gert inntak sameiginlegrar forsjár.  Fjallar er um réttindi og skyldur foreldra í tengslum við umgengnisrétt barns, m.a. er sú skylda lögð á foreldra að tilkynna hvort öðru fyrirhugaðan flutning lögheimilis.

Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að afnema það fyrirkomulag að stjúp- og sambúðarforeldrar fái sjálfkrafa forsjá stjúpbarns við tilteknar aðstæður. Þess í stað er lagt til að stjúp- eða sambúðarforeldri og kynforeldri sem fer eitt með forsjá geti samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Þá er lagt til að staða stjúp- og sambúðarforeldra verði styrkt nokkuð, sérstaklega þeirra sem fara með forsjá. Í því skyni er lagt til í 9. gr. frumvarpsins að stjúp- og sambúðarforeldrar fari áfram með forsjá barns eftir skilnað eða sambúðarslit við kynforeldri nema samið sé um annað. Í 18. gr. er lagt til að mæla fyrir um rétt barns til umgengni við aðra en foreldra með rýmri hætti en nú gildir en ákvæðið getur með þeim hætti náð til stjúpforeldra ef við á.

Í frumvarpinu eru lagðar til allnokkrar breytingar á málsmeðferð hjá sýslumönnum. Eitt af helstu nýmælunum er ákvæði 12. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að foreldrum beri skylda til að leita sátta áður en unnt er að krefjast úrskurðar eða höfða mál um tiltekin ágreiningsefni. Markmið með sáttameðferð er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem barni er fyrir bestu.

Í 13. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest séu nokkur helstu sjónarmið sem ber að leggja til grundvallar þegar tekin er ákvörðun um forsjá barns enda þykir kostur að geta þessa með skýrari hætti en í núgildandi lögum. Helsta efnislega nýmælið er að taka fram að dómara beri að líta til hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi.

Í frumvarpinu eru lögð til ýmis nýmæli um umgengnisrétt. Í 17. gr. er lagt til að skilgreina umgengni víðar en verið hefur, þ.e. að umgengni taki hvort tveggja til samveru og annarra samskipta. Í 18. gr. er að finna nýmæli um rétt barns til umgengni við aðra en foreldra þar sem gert er ráð fyrir þessum möguleika í fleiri tilvikum en áður.

Frumvarp innanríkisráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert