Minni húsnæðiskostnaður hér

Mánaðarleg útgjöld íslenskra heimila vegna húsnæðis sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eru lægri en í mörgum öðrum Evrópulöndum.

Nýverið birti Hagstofa Íslands lífskjararannsókn á stöðu íslenskra heimila en rannsóknin er hluti af samræmdri rannsókn Evrópusambandsins um lífskjör í álfunni. Fjallað er um rannsóknina í Markaðspunktum greiningardeildar Arion-banka.

Þrátt fyrir að hlutfall heimila, sem eiga talsvert erfitt með að ná saman endum, hafi hækkað í kjölfar hrunsins þá er staða Íslands í evrópskum samanburði enn fremur góð.

Evrópumeistarar í vanskilum húsnæðislána

Helst er að merkja að Ísland hefur færst fjær frá frændum sínum á Norðurlöndum eftir efnahagshrunið. Hins vegar má benda á að  hlutfall heimila á Íslandi sem eiga vart fyrir grunnútgjöldum hefur verið hærra en á Norðurlöndunum í a.m.k. 7 ár.

Athygli vekur þó að Íslendingar virðast vera Evrópumeistarar í vanskilum húsnæðislána, en við höfum vermt efstu sætin í vanskilum í Evrópu um nokkurt skeið.

Ef litið er á hlutfall þeirra (evrópska rannsóknin) sem eru verst staddir og eru flokkaðir niður í þrjá hópa, þ.e. þeir sem eiga nokkuð erfitt (vont), erfitt (verra) eða mjög erfitt (verst) með að ná endum saman í mánuði hverjum þá er ljóst að hlutfall íslenskra heimila sem búa við kröpp kjör hefur farið hækkandi á síðustu 2-3 árum. Þó vekur athygli að árið 2010 var hlutfallið svipað og árið 2004 en þá áttu tæplega 50% heimila erfitt með að ná endum saman.

Ef litið er til annarra Evrópulanda liggur fyrir að Íslendingar standa betur en meðaltalið. Heimili í Norður-Evrópu eru hins vegar í talsvert betri málum en heimili í suður- og miðhluta álfunnar. Meðal Norðurlandanna hefur hlutfall þeirra heimila sem eiga í miklum erfiðleikum með að ná endum saman verið á bilinu 2-4% á árabilinu 2004-2010. Á Íslandi fór þetta hlutfall lægst í 5-6% á árunum 2005-2008, þegar mesta uppsveiflan var hér á landi. Í dag eru rúmlega þrisvar sinnum fleiri heimili á Íslandi í miklum erfiðleikum með að standa undir útgjöldum en á hinum Norðurlöndunum,  segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert