Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag tvo unga menn, annan 19 ára og hinn tvítugan, í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi hvorn. Annar mannanna var dæmdur fyrir þjófnað en hinn fyrir líkamsárás.
Sá eldri var fundinn sekur um að hafa í júlí sumar slegið annan mann í andlitið á sparkvelli við Hamraskóla í Reykjavík. Sá sem höggið fékk nefbrotnaði. Árásarmaðurinn játaði sök og féllst á að greiða hinum 200 þúsund krónur í bætur.
Yngri pilturinn var dæmdur fyrir að brjótast inn í bílasölu í Reykjavík í desember 2009 í félagi við tvo aðra menn. Mennirnir stálu bifhjóli, fartölvu, myndavél og bíllyklum. Þá var pilturinn einnig fundinn sekur um búðarhnupl. Hann játaði brotin.