Annríki á Faxagarði

Varðskipin þrjú í Reykjavíkurhöfn í dag.
Varðskipin þrjú í Reykjavíkurhöfn í dag. mynd/Landhelgisgæslan

Varðskipið Týr kom til Reykjavíkur í dag eftir að hafa verið í leiguverkefnum fyrir Fiskveiðieftirlitsstofnun Evrópusambandsins (CFCA) síðastliðna sex mánuði, m.a. á Miðjarðarhafi, í Síldarsmugunni og á Flæmska hattinum.

Áætlað er að varðskipið Týr fari í slipp fljótlega.

Þá er varðskipið Ægir nýkomið heim eftir að hafa verið í verkefnum fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Varðskipið Þór undirbýr nú brottför frá Reykjavík þar sem skipið heldur til eftirlits- og löggæslu á Íslandsmiðum. Einnig mun Þór heimsækja hafnir á landsbyggðinni þar sem það verður opið til sýnis, að því er fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar.

Þar segir að um 14.500 manns hafi skoðað varðskipið Þór frá því að það kom til Íslands 26. október síðastliðinn.

Varðskipið Ægir tók þátt í fjöldamörgum björgunaraðgerðum þegar það sinnti verkefnum fyrir Frontex. Það tók m.a. þátt í að bjarga 495 flóttamönnum. Voru þeir fluttir til hafnar með Ægi eða öðrum björgunarskipum á svæðinu, þar af voru 272 í alvarlegum lífsháska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert