„Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.“ Þannig hljómar 2. málsgrein 71. greinar laga um þingsköp Alþingis. Fjarveru stjórnarandstöðuþingmanna við atkvæðagreiðslu á miðvikudag og í gærmorgun má að einhverjum hluta skýra með lögmætum forföllum. Hins vegar er ljóst að allmargir þingmenn brutu þingskapalög.
Athygli vakti að síðdegis á miðvikudag gengu þingmenn stjórnarandstöðunnar úr þingsal þegar greiða átti atkvæði um hvort halda ætti kvöldfund. Í framhaldinu boðuðu þingflokksformenn flokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar, að þingmenn þeirra hygðust ekki mæta til atkvæðagreiðslu sem haldin var í gærmorgun. Var þetta gert í mótmælaskyni við vinnubrögð í kringum afgreiðslu frumvarps til fjáraukalaga, og óþarfi er að rekja frekar.
Atkvæðagreiðslan síðdegis á miðvikudag var ógild þar sem færri en 32 þingmenn tóku þátt í henni. Er það í samræmi við 53. grein stjórnarskrár Íslands en í henni segir: „Eigi getur Alþingi gert samþykkt um mál nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslu.“ Í gærmorgun tóku hins vegar 34 þingmenn þátt í atkvæðagreiðslunni og taldist hún því lögmæt.
En hvaða örlög hljóta þeir þingmenn sem brjóta þingskapalög?
„Það eru engin viðurlög, ekki í þingskapalögum,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. „Þingmenn standa ábyrgir gagnvart kjósendum. En svo getur náttúrlega verið um lögmæt forföll að ræða og mönnum er í sjálfsvaldi að tilkynna þau. En það er regla sem reynt er að ganga eftir að ef um lögmæt forföll er að ræða þá tilkynni menn fjarvist. Það skiptir máli fyrir alla framkvæmd þingstarfanna, að það sé ljóst ef einhverjir eru fjarverandi, eru með lögmæt forföll. Þá er heldur ekki verið að kalla eftir þeirra svörum og viðbrögðum í þingsalnum.“
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, útilokar ekki að um lögmæt forföll hafi verið að ræða, einhverjir hafi til dæmis tilkynnt sig veika. „En þetta verða þingmenn að eiga við sjálfa sig og kjósendur sína.“ Hún segist halda að nóg úrræði séu fyrir alla í þingskapalögum til að láta skoðun sína koma fram. „Það er nú einu sinni þannig að ef maður er í minnihluta verður að nýta þær leiðir sem eru í lögunum til þess að láta sína andstöðu eða athugasemdir koma fram í gegnum þátttöku í þingstörfunum. En auðvitað er það hvers og eins að meta þetta.“
Spurð hvort eftirmál verði af fjarveru þingmannanna segir hún svo ekki vera. „Það er ekki nema kjósendum þeirra mislíki þetta. En ekki gagnvart mér.“ Hún áréttar þó að þetta sé náttúrlega brot á lögum.
Fordæmi eru þó fyrir því að þingmenn mótmæli með fjarveru við atkvæðagreiðslu. „Það eru dæmi um þetta í fortíðinni, en þau eru ekki fögur og engum til sóma,“ segir Helgi. „Þetta hefur gerst áður og ýmsir komið að því. Dæmi eru um að heilu þingflokkarnir hafi horfið úr þingsalnum. En þetta er ekki algengt og þetta er ráð sem ég held að menn ættu að hugsa aðeins betur.“
ÞRJÁTÍU OG FJÓRIR ÞINGMENN Í ÞINGSAL Í GÆRMORGUN
Þingfundur hófst á Alþingi í gærmorgun kl. 10 á atkvæðagreiðslu um frumvarp til fjáraukalaga. Þriðja umræða um frumvarpið fór fram síðdegis á miðvikudag og var stutt, enda yfirgáfu stjórnarandstöðuþingmenn þingsal áður en hún hófst.
Í gærmorgun var mesta spennan að sjá hversu margir þingmenn myndu mæta úr liði stjórnarandstöðunnar. Í ljós kom að tveir mættu, báðir úr þingflokki framsóknarmanna, þ.e. Siv Friðleifsdóttir og Höskuldur Þórhallsson. Guðmundur Steingrímsson var einnig mættur en hann er utan þingflokka. Þá var kallaður til varamaður fyrir Ögmund Jónasson innanríkisráðherra, sem staddur er í útlöndum.
Svo fór að fjáraukalögin voru samþykkt með 29 atkvæðum, Siv sagði nei, fjórir sátu hjá og 29 voru fjarverandi.