Veðurfræðingar spá breytingum á veðri í næstu viku. Veður fari kólnandi og þeim einstaka hlýviðriskafla sem einkennt hefur mánuðinn ljúki.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir á veðurbloggi sínu að flest bendi til þess að straumhvörf geti orðið í veðrinu um og fyrir miðja næstu viku. Þessum undarlegu hlýindum að hausti ljúki senn og lægðir fari að berast hingað úr suðvestri. Meira en það því nú sé farið að glitta í norðanátt af einhverju tagi.
Veðurstofa Íslands býst við norðlægri átt með ofankomu fyrir norðan á fimmtudag og föstudag, en þurru veðri syðra. Veður fari kólnandi.