Höfnuðu tillögu um frestun

Kristján Þór Júlíusson er formaður framtíðarnefndar Sjálfstæðisflokksins.
Kristján Þór Júlíusson er formaður framtíðarnefndar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins felldi í dag tillögu um að fresta því að afgreiða tillögur framtíðarnefndar flokksins á fundinum. Skiptar skoðanir eru um tillögurnar og hafa sumir fundarmenn hvatt til að flokkurinn taki sér lengri tíma til að fjalla um þær. Aðrir segja að það sé landsfundar að taka ákvörðun.

Á fundinum kom fram tillaga um að vísa tillögum framtíðarnefndar til kjördæmisráða flokksins og að þau skiluðu umsögnum til miðstjórnar. Það yrði síðan flokksráðsfundar að taka endanlega ákvörðun á árinu 2012. 77 fundarmenn vildu samþykkja tillöguna en 94 sögðu nei. Þetta þýðir að landsfundurinn kemur til með að greiða atkvæði um tillögurnar.

Inga Jóna Þórðardóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, var í hópi þeirra sem vildi fresta tillögunum. Hún sagði mikilvægt að fara vel yfir þessi mál og engin ástæða væri til að flýta sér. Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, sagði að það ætti að vera verkefni landsfundar að afgreiða þessi mál. Það væru vinnubrögð vinstrimanna að fresta því að taka ákvörðun, en sjálfstæðismenn ættu ekki að vera hræddir við að taka af skarið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert