Hörpudiskur enn í lægð

Hörpudiskurinn í Breiðafirði hefur enn ekki náð sér á skrið.
Hörpudiskurinn í Breiðafirði hefur enn ekki náð sér á skrið. mbl.is

Stofnstærð hörpudisks í Breiðafirði er áfram í lágmarki. Er það meginniðurstaða árlegrar stofnmælingar Hafrannsóknastofnunarinnar.

Hörpudiskurinn var rannsakaður í leiðangri Drafnar RE nú í nóvember.

Fram kemur á vef Hafró að allar mælingar á árunum 2006 til 2011 sýni að stofnstærð hörpudisks er 11-14% af meðaltali áranna 1993 til 2000. Þessi staða stofnsins muni að líkindum ekki breytast fyrr en nýliðunar fer að gæta til muna.

Þó að vísitala stofnstærðar sé áfram lág mældust nýleg dauðsföll (tómar skeljar samhangandi á hjör) lítil eins og á síðustu árum. Þannig hafa minni dauðsföll komið eldri hluta stofnsins til góða með eðlilegum vexti allt frá árinu 2006, bæði á suður- og norðursvæði.

Hrunið sem varð í stofninum eftir aldamótin 2000 vegna nýliðunarbrests og mikilla dauðsfalla af náttúrulegum ástæðum hefur verið rakið til frumdýrasýkingar sem greind var á fisksjúkdómadeild Tilraunastöðvar Háskólans að Keldum. Við fall stofnsins fór skeljum í öllum stærðarflokkum veiðistofnsins (60 mm og stærri) fækkandi vegna dauðsfalla sem jukust með stærð og aldri. Þó að vart hafi verið við smáskel af árgangi 2010 mælist hann eftir sem áður lítill í mælingunni. Möguleg nýliðun þessa árgangs mun þó koma betur í ljós á komandi árum, segir á vef Hafró.

Í leiðangrinum voru tekin sýni á tveimur svæðum til rannsóknar og munu niðurstöðurnar skera nánar úr um hvort frumdýrasýking í hörpudisksstofninum í Breiðafirði sé áfram í rénum eins og virðist hafa verið undanfarin ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert