Mögulegt að ljúka ferlinu 2013

Fánar við höfuðstöðvar Evrópusambandsins.
Fánar við höfuðstöðvar Evrópusambandsins. YVES HERMAN

Ef allt gengur að óskum þá er ekki hægt að útiloka að hægt verði að ljúka aðildarviðræðunum við Evrópusambandið árið 2013, að sögn Stefáns Hauks Jóhannessonar, aðalsamningamanns Íslands í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Hann fjallaði um aðildarviðræðurnar á fundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun.

Hann vill fara varlega að fullyrða nokkuð um nákvæma tímasetningu um hvenær viðræðunum ljúki. Það sem fyrst og fremst ræður hraðanum er hversu vel gengur að greiða úr málum sem þarf að taka upp í samningi. Ef allt gengur að óskum ekki að hægt að útiloka að hægt verði að ljúka þessu 2013.

Stefán Haukur segir mjög sérstakt andrúmsloft í Evrópu og menn hafa áhyggjur af stöðunni þar. Þetta hafi hins vegar ekki bein áhrif á aðildarferlið. Staðreyndin sýni að þetta er allt að malla ágætlega og rýnivinna gekk ágætlega, segir Stefán Haukur.

Íslensku sendinefndunum var hrósað fyrir hversu vel þær voru undirbúnar og vinni vinnuna sína vel, segir Stefán Haukur en sautján ára reynsla af því að vera þátttakandi í innri markaði ESB í gegnum EES skipti þar mestu.

Hann segir að viðræðurnar snúist miklu leyti um gjaldmiðilinn, hvort leiðin inn í ESB og evruupptaka sé sú leið sem þjóðin vilji fara. Sú breyting sé hins vegar á ferlinu núna, ólíkt því sem áður hefur verið þegar Ísland hefur gengið inn í alþjóðlegt samstarf, svo sem Atlantshafsbandalagið og evrópska efnahagsbandalagið, þá verður aðild borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stefán Haukur kom inn á hvaða áhrif viðræðurnar hafa haft á pólitískt landslag á Íslandi einkum og sér í lagi vegna sjávarútvegsmála.

Hugmyndin um fullveldi afstæð

Stefán Haukur segir að það séu misjafnar ástæður fyrir því hvers vegna menn vilja ganga í ESB, sumir nefni gjaldmiðlamálin, umhverfismál, friðarmál ofl. En að lokum snúist þetta að miklu um: hvernig snertir þetta budduna mína!

Eystrasaltsríkin hafi til að mynda sagt að þau hafi gengið í ESB til þess að styrkja fullveldi sinna ríkja á meðan umræðan hér sé að innganga geti skert fullveldi Íslands.

Hann segir að Ísland muni hafa áhrif innan ESB og meiri áhrif heldur en innan EES. Til að mynda verði Ísland stærsta sjávarútvegsríkið og eins muni álið skipta verulegu máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert