Nýtt skattþrep flækir framkvæmd

Fyrirhugað er að breyta auðlegðarskattinum enn einu sinni.
Fyrirhugað er að breyta auðlegðarskattinum enn einu sinni. mbl.is/Golli

Ríkisskattstjóri gerir athugasemdir við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum í umsögn til efnahags- og skattanefndar Alþingis. Bendir hann meðal annars á að nýtt skattþrep flæki skattaframkvæmdina og það kosti fjármuni.

Fjöldi umsagna hefur borist við frumvarpið en frestur til þess rennur út í dag.

Umsögn ríkisskattstjóra er ein þeirra umsagna sem bárust í dag.

Í frumvarpinu er meðal annars gert ráð fyrir framlengingu auðlegðarskatts til 2015. Kveðið er á um nýtt skattþrep á eignir yfir tilteknu marki.

Ríkisskattstjóri vekur athygli á að þetta er fjórða breytingin á auðlegðarskattinum frá því hann var lagður á fyrir tveimur árum. „Vegna þeirra breytinga sem nú eru lagðar til leyfir ríkisskattstjóri sér að benda á að nýtt skattþrep flækir skattaframkvæmdina og það kostar fjármuni.“

Samkvæmt frumvarpinu verður álagning auðlegðarskatts á hlutdeild í eigin fé félaga alltaf miðuð við annað tímamark en eignastaðan sjálf. Það segir ríkisskattstjóri að kalli á flækjur og kunni að virka ankannalegt. Fleiri atriði nefnir hann í umsögn sinni.

Sterku áfengi verði hlíft

Í umsögn ÁTVR er ítrekuð sú afstaða fyrirtækisins að skattlagning á sterku áfengi sé komin að þolmörkum. Leggur ÁTVR til, ef Alþingi ákveður að hækka áfengisgjöld, að sterkt áfengi verði hækkað minnst en bjór mest. Þannig verði áfengisgjald á bjór og vín hækkað um 5% en sterkt áfengi um 1%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert