OR gerir samning við Geogreenhouse

Hellisheiðarvirkjun
Hellisheiðarvirkjun

Á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur í morgun var samþykktur samningur við fyrirtækið Geogreenhouse um raforkusölu vegna gróðurhúsaræktunar á Hellisheiði.

Byggja á upp stórt ylræktarver á svæði sem skipulagt hefur verið fyrir slíka starfsemi vestan Hellisheiðarvirkjunar. Fyrirhugað er að framleiða þar tómata í gróðurhúsum og flytja á erlenda markaði. OR mun selja til starfseminnar rafmagn til lýsingar, heitt vatn til upphitunar og kalt vatn til vökvunar. Framleiðsla á þessum afurðum er þegar fyrir hendi í rekstri Hellisheiðarvirkjunar.

Sóley Tómasdóttir, fulltrúi VG í stjórn OR, segir að verkefnið sé í eðli sínu jákvætt, en samningurinn í anda hins liðna þar sem leynd hvílir yfir honum í heild sinni og kjörnum fulltrúum almennings meinað að upplýsa um innihald hans.

Sóley lagði fram tillögu á fundinum um að samninganefndinni yrði falið að óska eftir að leyndinni yrði aflétt sem var felld. „Fulltrúinn afþakkaði því upplýsingar um innihald samningsins, vék af fundi á meðan afgreiðslu málsins stóð og bókaði með eftirfarandi hætti:

Þremur árum eftir hrun, undir lok árs 2011 og í sömu viku og svört skýrsla um Orkuveitu Reykjavíkur er gerð opinber, fellir stjórn fyrirtækisins tillögu um að aflétta trúnaði af orkuverði í raforkusölusamningi vegna gróðurhúsaræktunar á Hellisheiði. Krafa almennings um breytt vinnubrögð, aukið lýðræði og gagnsæi er hundsuð og gamaldags íhaldssöm leyndarhyggja ræður enn för hjá stjórn fyrirtækisins.

Meirihluti stjórnar telur greinilega að leyndin þjóni hagsmunum Orkuveitunnar, enda hefur komið fram að krafa viðsemjanda fyrirtækisins um trúnað sé ekki afdáttarlaus. Þannig er ljóst að leyndarhyggjan eru tekin framyfir sanngirnis- og lýðræðissjónarmið.

Fyrirhugaður samningur markar að mörgu leyti tímamót. Hér er um spennandi nýsköpunarverkefni að ræða sem vonandi mun gefast vel fyrir samfélagið allt. Það er sorglegt að meirihlutinn skuli ekki nýta það tækifæri sem hér gefst til breyttra starfshátta í anda „sjálfbærs gagnsæis“ sem boðað hefur verið af hálfu meirihluta Besta flokks og Samfylkingar. Sömuleiðis skal minnt á nýja og breytta stefnu Landsvirkjunar sem Orkuveitan ætti að taka sér til fyrirmyndar. Þar er stefnt að samfélagslega ábyrgari viðskiptaháttum en áður hafa tíðkast, þar sem meðal annars er miðað að því að upplýsa um orkuverð.

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur alla tíð talað fyrir gagnsæi sem forsendu sanngjarnra viðskiptahátta. Orkuveita Reykjavíkur er í eigu borgarbúa sem eiga skýlausa kröfu um upplýsingar af þessum toga til að geta metið gildi og gæði samningsins. Sem fulltrúi Reykvíkinga í stjórn fyrirtækisins neitar undirrituð að taka við upplýsingum sem ætlast er til að haldið verði leyndum fyrir borgarbúum – en varða hagsmuni þeirra með ríkum hætti. Að því sögðu víkur fulltrúi Vinstri grænna af fundi og tekur ekki þátt í afgreiðslu samningsins," segir í tilkynningu frá Sóleyju Tómasdóttur fulltrúa VG í stjórn OR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert